Iðkendur, forráðamenn og aðstandendur hjá Skautafélagi Akureyrar, skora á bæjaryfirvöld að fjarlægja biðskýli sem stendur við útkeyrslu frá bílaplani skautahallarinnar. Það, auk trjáa sem standa við skýlið, er sagt byrgja algjörlega sýn upp götuna til vinstri þannig að bílar hverfa á nokkrum kafla.
„Þessi kafli og hraði umferðarinnar, gerir það að verkum að bílar eru oft komnir mjög nálægt þegar þeir sjást og af þessu verður hætta við útkeyrslu af planinu. Því skorum við á bæjaryfirvöld að fjarlægja biðskýlið og trén, og setja í staðinn skýli úr gegnsæju efni, eða færa skýlið norður fyrir götuna,“ segir í áskorun til bæjarins sem má nálgast hér.