27. nóvember, 2007 - 12:19
Skólanefnd Akureyrarbæjar samþykkti á fundi sínum í gær að óska eftir viðbótarfjárveitingu að upphæð 20 milljónum króna í fjárhagsáætlun næsta árs til þess að geta niðurgreitt daggæslugjöld með 200 börnum á næsta ári. Akureyrarbær mun samkvæmt þeirri áætlun verja rúmum 76 milljónum króna á næsta ári í þessar niðurgreiðslur. Þessi samþykkt er til komin vegna mikillar fjölgunar barna á aldrinum 6 - 18 mánaða sem eru á umsóknarlista eftir daggæslu á næsta ári, en í dag er verið að niðurgreiða með 149 börnum. Til þess að mæta þeim aukna kostnaði sem fylgir því að niðurgreiða með öllum börnunum var á fundi skólanefndar einnig samþykkt breyting á niðurgreiðsluupphæð Akureyrarbæjar með hverju barni. Sú breyting hefur í för með sér að frá 1. janúar 2008 greiða foreldrar sem eru giftir eða í sambúð kr. 29.325 á mánuði fyrir 8 klst. vistun pr. dag og á móti greiðir Akureyrarbær kr. 38.964. Einstæðir foreldrar og foreldrar sem báðir eru í námi greiða kr. 21.854 á mánuði fyrir sama tíma en Akureyrarbær greiðir á móti kr. 46.435. Þessi samþykkt tryggir að Akureyrarbær er enn meðal þeirra sveitarfélaga sem niðurgreiða daggæslu mest og foreldrar greiða minnst, segir í fréttatilkynningu.