Skólamáltíðir hækka um 12%

Á fundi skólanefndar Akureyrarbæjar nýverið var samþykkt að hækka gjaldskrá mötuneytanna um 12% og að mánaðaráskrift verði lögð af vegna lítillar nýtingar. Einnig var samþykkt að gera ráð fyrir að skólamötuneytin þurfi að hagræða í rekstri til að endar nái saman. Elín Margrét Hallgrímsdóttir, formaður skólanefndar, segir að stefna bæjaryfirvalda sé að skólamáltíðirnar eigi að standa undir kostnaði og að skólamötuneytin eigi að standa undir sér. „Ef ekkert er að gert stefnir í 6 milljóna króna halla um áramót. Með þessum aðgerðum náum við vonandi hallanum niður í 4 milljónir króna en það er klárt að við leggjum það á mötuneytin að reyna að hagræða. Við lækkuðum verðið um 11 krónur á máltíð í mars sl. þegar virðisaukaskatturinn var lækkaður. En eins og allir vita þá virðist sú lækkun ekki hafa skilað sér til neytenda. Með annaráskrift kostar máltíðin nú um 260 krónur, sem er þó lægra en hún kostaði árið 2001 þegar skólamáltíðir voru settar á, þá kostaði máltíðin 300 krónur.

Í nágrannasveitarfélögum hefur verð á skólamáltíðum ekki hækkað og þar er boðið upp á systkinaafslátt, sem ekki er gert á Akureyri, hvað segir þú um það? „Ef fólk skoðar verðin á skólamáltíðum í þessum sveitarfélögum þá kemst það að því að verðið þar var allavega hærra en á Akureyri og ég held að það sé það enn. Elín Margrét sagði það pólítíska ákvörðun að skólamáltíðir í grunnskólum séu ekki niðurgreiddar, líkt og t.d. gert er í leikskólum. „Við tókum einfaldlega þá ákvörðun að greiða þetta ekki niður og nota þá peninga sem við fáum í annað, eins og t.d. þróunarstarf í skólanum og slíkt. Við teljum það mikilvægara heldur en að greiða niður matinn. Þetta var einfaldlega ákvörðun sem var tekin, 6 milljónir er t.d. talsverður peningur sem getur nýst á ýmsum stöðum í skólastarfinu. Þetta er bara spurning um forgangsröðun."

Elín sagðist hafa heyrt af nokkrum dæmum um foreldra sem ekki hafi efni á að greiða fyrir skólamáltíðir barna sinna, en við því hafi verið brugðist með viðeigandi hætti. „Við höfum það kerfi í skólanum að skólastjórar og kennarar fylgjast vel með slíku og ef slíkt tilfelli kemur upp, þá fá þau börn að borða án þess að vera rukkuð fyrir það."

Nýjast