22. október, 2008 - 19:09
Samfélags- og mannréttindaráð, sem fer með forvarnamál fyrir hönd Akureyrarbæjar, fór á fundi sínum í dag í
kynnisferð um bæinn til þess að skoða áfengisauglýsingar á almannafæri.
Tilgangur samfélags- og mannréttindaráðs með skoðunarferðinni var að kortleggja áfengisauglýsingar á almannafæri ásamt
því að vekja athygli á því að víða er brotið gegn ákvæðum áfengislaga. Í 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998
segir: Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar. Enn fremur er bannað að sýna neyslu eða hvers konar aðra
meðferð áfengis í auglýsingum eða upplýsingum um annars konar vöru eða þjónustu. Með auglýsingu er átt við hvers
konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu,
svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður, útstillingar, dreifing
prentaðs máls og vörusýnishorna og þess háttar. Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér
firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn
eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í
skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.