„Skjalda launar kálfi ofbeldið“

Hreiðar Eiriksson á lokaorðið í þessari viku
Hreiðar Eiriksson á lokaorðið í þessari viku

Mig langar að þakka ykkur öllum sem hafa lesið lokaorðin mín á undanförnum vikum. Það er mér sérstaklega ánægjulegt að einhverjum skuli þykja skemmtilegt að lesa það sem ég hef skrifað. En í þetta sinn ætla ég að vera bæði leiðinlegur og skrítinn. Það er mér hvort sem er tamara.

Allt frá því ég man fyrst eftir mér hefur mér þótt ég falla illa inn í flesta hópa sem ég hef reynt að tilheyra. Ég hef verið svolítið eins og púslið sem passa ekki inn í myndina. Eins og ég sé púsl úr öðrum kassa. Ég hlýt að hafa skroppið á klósettið meðan himnafaðirinn úthlutaði hæfileikum og mannskostum tll sköpunarverka sinna. Ég varð snemma illa máli farinn og óskýr í hugsun. Hefur það loðað við mig síðan.

Útlit mitt hentar best hljóðvarpi en röddin á betur við prentmiðla. Og grár ullarlagður hefur meiri útgeisliun en ég. Söngrödd mín er tónelskum ami og líkamlegt atgervi mitt er af áður óþekktri smæð. Sagt er að úti um gjörvalla Eyjafjarðarsýslu séu enn varamannabekkir volgir eftir þaulsetur mínar á þeim. Vissulega fékk ég stundum að spila knattspyrnu með liði mínu ef hvorki fundust strákar né stelpur sem saman fylltu í ellefu manna lið.

Ég ætla ekki að fíflast meira í þessum lokaorðum því mér liggur svolítið á hjarta. Pabbi heitinn sagði mér stundum að ég ég hefði ekkert viturlegt að segja ætti ég frekar að þegja. En það læt ég mér sem vind um eyru þjóta.

Í alvöru talað

Við lifum undarlega tímum og öll tilveran virðist ramba á heljarþröm. Við finnum vel að enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Óeining og ófriður geisar víðar en við eigum að venjast. Sum okkar verða hrædd, önnur verða reið og enn öðrum fallast hendur og halda að allt sé tapað, En svo er ekki.

Sigur ljóssins yfir myrkrinu

Í morgun þegar ég dró gluggatjöldin frá flæddi ljósið inn í húsið mitt. Ég hafði þá rétt áður rekið höfuðið í eitthvað og bölvað myrkrinu í huganum. Gagnaðist það mér að bölva myrkrinu? Eða hvarf myrkrið sjálfkrafa þegar ég leyfði ljósinu að flæða inn? Kannski er það eins með ófriðinn. Kannski ættum við að hætta að fordæma ófriðinn og sömuleiðis hætta að berjast með ofstæki fyrir því að ófriðarseggjum verði refsað, þeir útskúfaðir og smánaðir. Kannski er ekki endlega best að berjast gegn ófriði.

Kannski er ekki vænlegast til árangurs að standa öskrandi á torgum og raska þannig friði og öryggi annarra í þágu góðs málsstaðar. Mögulega er árangursríkara að tala fyrir friði og treysta því að friðurinn muni hrekja ófriðinn á brott líkt og ljósið rekur myrkrið burt.

Þegar ég var barn sátu hippar á strætum og túnum með blóm og töluðu fyrir friði. Þetta voru áhrifamestu fjöldahreyfingar mannskynsssögunnar og þær spruttu af ást og friðarvilja. Ungt fólk þeirra tíma krafðist ekki viðskiptaþvinganna, útskúfana, fordæminga eða manndrápa. Það talaði fyrir friði og þannig breytti það heiminum. Ættum við að endurtaka leikinn? Getur verið að ófriðurinn víki sjálfkrafa fyrir friðinum líkt og myrkrið víkur fyrir ljósinu?

Eigum við að prófa að koma saman í friði, ræða saman um friðinn og láta á það reyna hvert það leiðir okkur?

 

Nýjast