Á aðalfundi Samtakanna ´78 sem fram fór laugardaginn 5. mars sl. var kosið um umsóknir tveggja félaga um hagsmunaaðild að samtökunum. Um var að ræða umsókn HIN - Hinsegin Norðurland annars vegar, en það er félag hinsegin fólks á Norðurlandi. Hins vegar var kosið um umsókn BDSM á Íslandi. Umsóknir beggja félaga voru samþykktar og teljast þau bæði hagsmunafélög.
Aðild BDSM á Íslandi að samtökunum ’78 hefur verið mikið í umræðunni frá því að umsóknin var samþykkt. Í frétt Vísis um málið er talað um klofning innan samtakanna, atkvæði féllu þannig að 47 greiddu með og 40 á móti. Margir hafa tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum.
Hildur Eir Bolladóttir er ein þeirra sem tjáir sig á Facebook, en hún skilur ekki hvers vegna verið sé að rugla saman kynórum og kynhneigð. „Hér er verið að jaðarsetja samkynhneigð með því að láta hana í flokk með BDSM og það er óþolandi afturför frá öllum þeim stórum sigrum sem hafa unnist á undanförnum árum. BDSM er ekki synd en það er hins vegar jaðarhegðun. Það eru ekki sjálfsögð mannréttindi að samfélagið viðurkenni kynóra fólks þó það séu viss mannréttindi að geta rætt um þá án þess að vera grýttur því ef að ekki má ræða kynóra þá eru meiri líkur á því að þeir brjótist út í ofbeldi. Kynhneigð er allt annað en kynórar,“ skrifar hún m.a.
Formaður Samtakanna ´78, Hilmar Hildarson Magnúsarson, segir sögur um klofning og úrsagnir vera ýktar, það sé ekki stórt hlutfall félaga sem hafi sagt sig úr samtökunum. Stjórn samtakanna sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem aðdragandi þess að BDSM á Íslandi fékk aðild að Samtökunum ´78 er útskýrður sem og staða aðildafélaganna. „BDSM á Íslandi hefur ekki ‘sameinast’ Samtökunum ‘78. Samtökin ‘78 eru regnhlífarsamtök ólíkra hinsegin félaga, þótt félagsaðild hafi verið og sé enn bundin við einstaklingsaðild. BDSM á Íslandi verður nú í hópi 8 annarra félaga“, segir í yfirlýsingunni. Þar segir jafnframt að „Samtökin ‘78 eru enn þau sömu. Það hefur ekkert breyst. Fræðslan er ekki breytt. Ráðgjöfin. Ungliðastarfið. Þetta starf verður áfram unnið undir sömu formerkjum, af sama fólki, og er allt jafnfrábært og faglegt og verið hefur. Það sem hefur breyst er að lítið samfélag fólks hefur leitað til félagsins og hefur fengið þar skjól, eins og margir aðrir hópar.“
Minna hefur farið fyrir aðild Hin – Hinsegin Norðurland að Samtökunum ´78 en umsókn þess efnis var samþykkt á aðalfundinum. Engilbert Haukur Kolbeinsson formaður Hinsegin Norðurlands var að vonum ánægður með aðildina þegar Dagskráin tók hann tali. Hann sagðist ekki hafa orðið var við úrsagnir eða klofning innan síns félags vegna aðildar BDSM á Íslandi, þótt skoðanir gætu vissulega verið skiptar. Hann benti á að aðild þessara tveggja félaga að Samtökunum ´78 væri með engu ólíkt og þegar Hinsegin kórinn og íþróttafélagið Styrmir fengu aðild. „Ekki hefur neinn í samtökunum þurft að læra kórsöngva eða fara í íþróttir,“ segir Engilbert og tekur þar með undir með stjórn Samtakanna ´78 um að aðildarfélögin séu sjálfstæð félög. Samtökin muni eftir sem áður standa að öflugu fræðslustarfi og standa vörð um réttindi hinsegin fólks á Íslandi.
EPE