Sjómenn hafa ekki sýnt andvaraleysi

Sjómenn ætla að berjast gegn því að sjómannaafslátturinn verði afnuminn.
Sjómenn ætla að berjast gegn því að sjómannaafslátturinn verði afnuminn.

„Þessi ummæli eru fáránleg og alveg út í hött.  Að saka sjómenn um andvaraleysi í þessum málum er alls ekki rétt,“ segir Konráð Alfreðsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar. Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma í Fjallabyggð var frummælandi á fundi Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í liðinni viku þar sem fjallað var um frumvörp ríkisstjórnarinnar um stjórn fiskveiða og veiðigjöld.  Ólafur lagði fram útreikninga varðandi fyrirtækið og áhrif kvótafrumvarpanna á það og nefndi að t.d. veiðigjald sem á fyrirtækið yrði lagt myndi fara úr  56 milljónum króna eins og það var 2010 upp í i 772 milljónir miðað við forsendur frumvarpsins.

Hann nefndi í framsögu sinni að þegar horft væri á tölur yrði hann að segja „að mér finnst sjómenn sýna furðu mikið andvaraleysi. Við búum við hlutaskiptakerfi þar sem sjómenn eiga tvo af hverjum fimm fiskum sem um borð koma. Nú ætlar ríkið að taka til sín tæpan fimmtung, einn af hverjum fimm fiskum. Óhjákvæmilegt er að það komi niður á launum sjómanna og svo geta menn velt fyrir sér hvaða áhrif slíkt síðan hefur á útsvar og tekjuskatt, minnkandi veltu í nærsamfélaginu o.s.frv.“

Konráð segir að sjómenn hafi farið yfir frumvörpin og hvaða áhrif þau hefðu á þeirra hag, en ef til vill hefðu sjónarmið þeirra ekki komið nægilega skýrt fram í umræðunni.  Sjómannaforystan hefði skilað ítarlegri umsögn um frumvörpin og í þeim væru atriði sem þeir sættu sig við en einnig önnur sem brýnt væri að breyta.  „Þessi ummæli Ólafs eru því mjög sérkennileg, þessi mál hafa verið rædd fram og aftur innan raða sjómanna,“ segir Konráð.

„Það vita það líka allir að ef frumvörpin fara óbreytt í gegn og auknar álögur verða lagðar á útgerðina mun það koma niður á kjörum sjómanna. Við höfum bent á þetta en ef til vill hefur okkar rödd ekki heyrst nægilega skýrt þannig að vera kann að Ólafur hafi ekki heyrt hver afstaða okkar er í málinu.  En að halda því fram fullum fetum að sjómenn hafi sýnt andvaraleysi er algjörlega úr lausu lofti gripið,“ segir Konráð.

Hann segir að sjómenn hafi margítrekað beðið um fund með sjávarútvegsráðherra til að ræða málin, en ekki fengið.  Konráð segir að á allra vitorði sé að sjómenn muni ekki gefa sjómannaafsláttinn eftir og þeir muni berjast gegn því að hann verði afnuminn.

 

Nýjast