Sjálfstæðiskonur styðja barnafjölskyldur í vanda

Sjálfstæðiskonur um land allt hafa tekið höndum saman og efna til söfnunar fyrir Mæðrastyrksnefndir um land allt. Söfnunin, Tökum höndum saman - styðjum barnafjölskyldur í vanda, hófst í dag mánudaginn 7. desember og stendur til 20. desember nk.  

Söfnuninni var formlega hleypt af stokkunum í dag mánudag kl. 12.00 fyrir framan húsnæði Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur að Hátúni 12 og þangað fjölmenntu sjálfstæðiskonur. Allur ágóði söfnunarinnar rennur óskiptur til Mæðrastyrksnefnda í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, á Akranesi og á Akureyri. Nefndirnar munu nýta ágóðan til að styðja barnafjölskyldur í vanda á Íslandi. Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur úthlutar um land allt, en prestar geta haft milligöngu í þeim sveitarfélögum þar sem ekki er starfandi Mæðrastyrksnefnd.

Einstaklingar og fyrirtæki geta lagt söfnuninni lið með því að kaupa stuðningskort sem seld eru hjá eftirtöldum fyrirtækjum vítt og breitt um landið: Byko, Debenhams, Dýrfinnu og Finni gullsmiðum Akranesi, Einarsbúð Akranesi, Fjarðarkaup, Hagkaup, Heitt á prjónunum Ísafirði, Kjarval, Melabúðinni, N1, Nóru Kópavogi, Sælukjallaranum Patreksfirði, Verslunum 10-11, Verslunum 11-11, Verslunum Bónus, Verslunum Krónunnar, Verslunum Nóatúns og í World Class

Jafnframt er hægt leggja inn á söfnunarreikning Mæðrastyrksnefndar á vefsíðu söfnunarinnar www.xd.is/tokumhondumsaman

Aldrei hafa eins margir leitað á náðir Mæðrastyrksnefndar og undanfarnar vikur og hefur fjöldinn sem sótt hefur aðstoð þrefaldast á síðastliðnu ári. Búist er við því að rúmlega fjögur þúsund fjölskyldur muni óska eftir aðstoð hjálparstofnana um jólin. Þetta eru þung skref fyrir alla þá sem þurfa að leita á náðir þeirra til að þiggja nauðsynjar. Það er einlæg von sjálfstæðiskvenna, að enginn þeirra sem leitar á náðir Mæðrastyrksnefnda þurfi frá að hverfa vegna skorts.

Nýjast