Sjálfstæðiskonur söfnuðu til styrktar mæðrastyrksnefndum

Sjálfstæðiskvennafélagið Vörn Akureyri safnaði 500 þúsund krónum fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar, ásamt söluaðilum stuðningskorta og þar af söfnuðst 230 þúsund krónur á Glerártorgi sl. laugardag. Fjármunirnir voru afhentir Mæðrastyrksnefnd í morgun. Söfnuninni, Tökum höndum saman - styðjum barnafjölskyldur í vanda, er nú lokið.  

Sjálfstæðiskonur um land allt vilja senda öllum þeim sem styrktu söfnunina bestu óskir um gleðileg jól og innilegar þakkir fyrir framlag þeirra í þágu þessa góða málefnis. Alls söfnuðust tæplega 3 milljónir króna. Sjálfstæðisflokkurinn greiðir allan kostnað vegna söfnunarinnar og því rennur framlagið óskipt til fimm mæðrastyrksnefnda; Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur, Mæðrastyrksnefndar Akureyrar, Mæðrastyrksnefndar Akraness, Mæðrastyrksnefndar Hafnarfjarðar og Mæðrastyrksnefndar Kópavogs. Sérstakar þakkir fá allir söluaðilar stuðningskortanna fyrir að hafa selt kortin á útsölustöðum sínum í verslunum vítt og breitt um landið. Margt smátt gerir eitt stórt en ætla má að 5-6 þúsund einstaklingar hafi lagt sitt af mörkum til þess að aðrir Íslendingar geti haldið gleðileg jól. Landsmenn hafa sýnt og sannað jólaanda og samkennd með stuðningi sýnum við söfnunina, Tökum höndum saman - styðjum barnafjölskyldur í vanda.

Nýjast