Sjálfstæðisflokkurinn mun auglýsa eftir bæjarstjóra

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins/mynd karl eskil
Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins/mynd karl eskil

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins á Akureyri sendu í kvöld frá sér tilkynningu, þar sem fram kemur að flokkurinn muni leggja til að auglýst verði eftir bæjarstjóra, komi hann að meirihlutasamstarfi eftir kosningar.

Fréttatilkynning frá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningar 31. maí 2014 :

„Í tilefni af ummælum sem fram komu í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag, sunnudaginn 13. apríl, um að Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri væri búinn að ákveða að Gunnar Gíslason, oddviti listans, væri bæjarstjóraefni flokksins er rétt að eftirfarandi komi fram: Sjálfstæðisflokkurinn á Akureyri leggur áherslu á að forsvarsmenn Akureyrarbæjar láti að sér kveða og tali máli bæjarins, þannig að eftir því sé tekið á landsvísu. Þá skiptir ekki máli hvort bæjarstjórinn er kjörinn bæjarfulltrúi eða ekki, aðalmálið er að menn séu samstíga og röddin heyrist. Sjálfstæðisflokkurinn leggur ekki áherslu á að ráðinn sé pólitískur bæjarstjóri eins og fullyrt var í þættinum, það hefur aldrei verið sett fram af hálfu flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Komi flokkurinn að meirihlutasamstarfi eftir kosningar mun hann leggja til að auglýst verði eftir bæjarstjóra,“ segir í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum á Akureyri.

Nýjast