Sigurður bauð lægst í fram- kvæmdir á Oddeyrarbryggju

Alls bárust tólf tilboð í framkvæmdir á Oddeyrarbryggju á Akureyri en tilboðin voru opnuð í gær. Sjö tilboð voru undir kostnaðaráætlun, sem var upp á rúmar 9,8 milljónir króna. Lægsta tilboð átti Sigurður B. Björnsson á Akureyri, 6,8 milljónir króna, eða um 69% af kostnaðaráætlun.  

Um er að ræða steypuframkvæmdir við nýjan kant með pollum á Oddeyrarbryggju, uppsetningu og frágang á kanttré og fleira. Verkinu skal lokið eigi síðar en 15. maí í vor. Öxin ehf. og Þorsteinn Jökull á Akureyri áttu næst lægsta tilboð í verkið, rúmar 7,2 milljónir króna, eða rúmlega 73% af kostnaðaráætlun. Þriðja lægsta tilboð átti Héraðsfjörður á Egilsstöðum, rúmar 7,4 milljónir króna, eða rúmlega 75% af kostnaðaráætlun. Ellefu tilboð bárust Hafnasamlagi Norðurlands á Akureyri en eitt tilboð barst Siglingastofnun í Kópavogi.

Nýjast