Sigrún Magna og Eyþór Ingi leika saman í fyrsta skipti

Sigrún Magna og Eyþór Ingi spila fjórhent og fjórfætt á orgelið.
Sigrún Magna og Eyþór Ingi spila fjórhent og fjórfætt á orgelið.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Eyþór Ingi Jónsson organistar Akureyrarkirkju,  leika saman á orgel kirkjunnar, á Sumartónleikum í Akureyrarkirkju sunnudaginn 15. júlí kl. 17.00. Yfirskrift tónleikanna er átta armar, allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis. Jafnaldrarnir Sigrún og Eyþór starfa hlið við hlið við í Akureyrarkirkju, deila skrifstofu og skiptast á að spila við athafnir í kirkjunni en þau hafa aldrei spilað saman. Það verða eflaust átök á orgelbekknum á þessum tónleikum.   Á efnisskránni eru verk fyrir fjórar hendur og fjóra fætur m.a. eftir W.A. Mozart, Christian Höpner, Johann Strauss (yngri), Michael Burkhardt, Franz Berwald, Þorkel Sigurbjörnsson, Pál Ísólfsson og Jón Hlöðver Áskelsson.

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Í námi sínu lagði hún sérstaka áherslu á barnakórstjórn, tónlistaruppeldi barna og kenningar um tónlistarþroska barna. Sigrún hefur stjórnað barnakórum og blönduðum kórum í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Sigrún starfar nú sem  barnakórstjóri og organisti  við Akureyrarkirkju og við Möðruvallaklausturskirkju og kennir við Tónlistarskólann á Akureyri. Hún hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og erlendis bæði sem einleikari, meðleikari og kórstjóri. Sigrún hefur sótt fjölda námskeiða m.a. hjá Olivier Latry, Hans-Ola Ericsson, Michael Radulescu og Mattias Wager. Sigrún er framkvæmdastjóri Sumartónleika í Akureyrarkirkju og Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju. Hún hefur einnig haldið tónlistarnámskeið fyrir foreldra ungbarna.

Eyþór Ingi Jónsson er fæddur og uppalinn í Dalasýslu, þar sem hann hóf tónlistarmenntun sína sex ára gamall.  Síðar nam hann tónlist við Tónlistarskólann á Akranesi og Tónskóla Þjóðkirkjunnar þaðan sem hann lauk kantorsprófi vorið 1998.  Við tók 7 ára nám við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð fyrst við kirkjutónlistardeild og síðar við konsertorganistadeild.  Þaðan lauk hann prófi með hæstu einkunn vorið 2007.  Orgelkennari hans var prófessor Hans-Ola Ericsson.  Hann hefur einnig sótt námskeið hjá fjölda þekktra kennara víða um Evrópu. Eyþór hefur kennt orgelleik, spuna og kórstjórn ásamt fræðigreinum í Svíþjóð og á Íslandi. Hann hefur haldið hátt í 100 einleikstónleika hérlendis og erlendis.  Einnig hefur hann leikið með fjölda hljóðfæraleikara og söngvara og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Eyþór starfar nú sem annar organisti Akureyrarkirkju.  Einnig er hann stjórnandi kammerkórsins Hymnodia og kammerkórsins Ísoldar. Hann situr í ýmsum fagráðum og nefndum og er listrænn stjórnandi Barokksmiðju Hólastiftis.  Eyþór var bæjarlistamaður Akureyrar 2011-2012

 

 

 

Nýjast