„Við höfum verið að vinna að hugmyndum um uppbyggingu fyrir siglingaíþróttina við Pollinn, höfum m.a. unnið þetta í samráði við Vegagerðina og þessar tillögur verða lagðar fyrir skipulagsnefnd Akureyrar á næstunni," segir Rúnar Þór Björnsson, formaður Siglingaklúbbsins Nökkva á Akureyri.
Nökkvamenn eru stórhuga í áformum sínum og Rúnar Þór dregur enga dul á að Akureyri sé aðal staðurinn þegar siglingar eru annars vegar. „Við viljum að Siglingamiðstöð Íslands verði stofnuð og staðsett á Akureyri. Nökkvi hefur í nokkur ár verið langstærsti siglingaklúbbur landsins og Akureyri er vel í sveit sett hvað varðar staðsetningu sem þjónar flestum landsmönnum," segir Rúnar. Hugmyndir Nökkvamanna ganga í stórum dráttum út á það að í norður frá Leiruvegi verði byggður langur garður út í Pollinn og við enda hans komi bryggja sem liggi að núverandi höfuðstöðvum Nökkva við Höepfnersbryggju. Inn í þeirri „dokk" sem þarna myndaðist yrði ýmis aðstaða fyrir unga siglingamenn og þá bendir Rúnar Þór á að þarna væri meira en tilvalið að hafa áningarstað ferðamanna og jafnvel útbúa þar litla baðströnd. Rúnar bendir á að tilvalið væri að nýta efni sem kemur úr fyrirhuguðum Vaðlaheiðargöngum í garðana sem byggðir yrðu út í Pollinn ef tímasetning framkvæmdanna tveggja getur farið saman. „Ég er mjög bjartsýnn á framvindu þessa máls. Það þarf auðvitað að horfa á uppbyggingu aðstöðu fyrir siglingafólk eins og á aðra uppbyggingu íþróttamannvirkja. Og hvað varðar peningahliðina segi ég bara að þar sem er vilji, þar eru til peningar," sagði Rúnar Þór.