Tæplega 7 þúsund tonn af úrgangi frá Eyjafjarðarsvæðinu voru urðuð á síðasta ári, sem er um 27% minna magn en árið á undan. Þetta kom fram á aðalfundi Flokkunar Eyjafjarðar sem haldinn var nýlega. Tap varð af reksti félagsins upp á um 15 milljónir króna, en það tengist að stórum hluta rekstri dótturfélagsins Moltu ehf, sem rekur jarðgerðarstöð í Eyjafjarðarsveit. Eiríkur H. Hauksson stjórnarformaður Flokkunar Eyjafjarðar segir að það magn sem til urðunar fer minnki sífellt milli ára, en árið 2010 voru urðuð rúm 9.600 tonn af úrgangi, en voru um 7 þúsund tonn í fyrra, eða um 27% minna. Skipting milli úrgangs sem var urðaður er gróflega áætlaður þannig að um 70% koma frá rekstri og um 30% er heimilisúrgangur. Eiríkur tekur fram að stærstur hluti úrgangs frá hefðbundnum búrekstri flokkist sem heimilisúrgangur.
Skýringin á minna sorpmagi er fyrst og fremst til komin vegna þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á meðhöndlun úrgangs á öllu Eyjafjarðarsvæðinu síðastliðið ár. Urðunarstaðurinn á Glerárdal lokaði og nú þarf að fara um töluvert langan veg með það sem þarf til urðunar. Það er því mikill hagur fyrir okkur öll að sem minnst fari til urðunar enda kostnaður við flutninga svo langa leið umtalsverður, segir Eiríkur. Öll sveitarfélög í Eyjafirði hafa tekið upp meiri flokkun en áður og því fer mun stærra hlutfall úrgangs nú til endurvinnslu.
Á aðalfundi Flokkunar Eyjafjarðar var kjörin ný stjórn, Eiríkur H. Hauksson, Svalbarðsstrandahreppi var kjörinn formaður en aðrir í stjórn eru, Helgi Einarsson Dalvíkurbyggð, Hulda Stefánsdóttir Akureyri,, Kristín Halldórsdóttir Akureyri og Margrét Auður Sigurbjörnsdóttir Akureyri