Síðasta sýningarhelgi Nóa í Ketilhúsinu á Akureyri

Jóhann Ingimarsson, eða Nói eins og hann er jafnan nefndur, opnaði sýningu í Ketilhúsinu á Akureyri laugardaginn 1. nóvember og lýkur henni um helgina. Opið er á morgun laugardag og á sunnudag frá kl. 13-17. Sýningin ber yfirskriftina BLAND og eins og nafnið gefur til kynna sýnir Nói þar blönduð verk, skúlptúra, húsgögn og málverk.  

Nói var á árum áður einn helsti frumkvöðull íslensks húsgagnaiðnaðar og starfaði við hönnun, framleiðslu og sölu húsgagna nær allan sinn starfsaldur. Hann hefur ávallt verið mjög virkur í listsköpun sinni. Til marks um það má nefna að enginn listamaður, hvorki núlifandi né látinn, státar af því að eiga fleiri útilistaverk vítt og breitt um Akureyri en Nói. Þá hefur hann haldið fjölmargar sýningar á málverkum og þrívíddarverkum, bæði einkasýningar og með þátttöku í samsýningum. Vegna fjölbreytilegs viðfangs á hönnunar- og listasviði yfir langa ævi vill Nói sjálfur kalla sig fjöllistamann. Verk hans njóta mikilla vinsælda og eru eftirsótt af listunnendum enda eiga þau sérlega vel heima í nútímalegum húsakynnum.

Nýjast