Sex af níu leikskólum í rekstri Akureyrarbæjar leyfa ekki starfsmönnum að hafa eigin börn á leikskólunum. Þetta eru Naustatjörn, Hulduheimar, Iðavöllur, Krógaból, Sunnuból og Tröllaborgir. Deildarstjóri á leikskólanum Naustatjörn er ósátt við þá reglu skólans að börn starfsmanna fái ekki pláss á leikskólanum. Deildarstjórinn óskaði eftir því á fundi skólnefndar að málið yrði tekið fyrir og fjallað um réttmæti þeirrar reglu.
Skólanefnd gerði hins vegar ekki athugasemdir við þá reglu sem um ræðir, enda hefur verið sýnt fram á að hún brýtur ekki í bága við lög og almennar reglur um starfsmannamál, segir í bókun.
Spurð um þetta mál segir Hrafnhildur G. Sigurðardóttir, leikskólafulltrúi Akureyrarbæjar, að þegar slíkar vinnureglur séu settar sé tekið tillit til ýmissa mála. Meðal annars er hugað að hagsmunum barnanna, hagsmunum kennara og foreldra sjálfra, einnig samkennurum.