Í tilefni bókunar sveitarstjórnar Norðurþings um Húsavíkurflugvöll vill Isavia koma eftirfarandi á framfæri:
"Þær framkvæmdir sem standa yfir á Húsavíkurflugvelli við endurbætur á ljósabúnaði og lagningu nýs slitlags eru til þess að auka öryggi flugfarþega um flugvöllinn, en ljósabúnaðurinn var kominn til ára sinna og nauðsynlegt að endurnýja slitlagið. Flugbrautin á Húsavíkurflugvelli er 30 metra breið með bundnu slitlagi en ljósabúnaðurinn sem verið er að skipta út var nokkuð utan við brautina. Samgöngustofa sem er eftirlitsaðili með rekstri flugvalla á Íslandi hafði gert athugasemdir við þetta og nú verður ljósabúnaðurinn því færður nær brautinni eins og reglugerðir kveða á um. Framkvæmdir við nýtt slitlag og uppfærslu á ljósabúnaði er því til þess fallin að auka öryggi á flugvellinum og stórbæta búnað. Það er ekki rétt að verið sé að þrengja flugbrautina enda er hún skráð 30 metra breið í flugmálahandbók og hefur verið þannig um langt árabil," segir í tilkynningu frá ISAVIA.