Bæjarstjórn Akureyrar fordæmir þau áform SÁÁ að loka göngudeild sinni á Akureyri um næstu áramót. Málið var rætt á bæjarstjórnarfundi á Akureyri í gær þar sem eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða:
„Það er að okkar mati algjörlega óásættanlegt að í þjónustusamningi ríkisins við SÁÁ sé ekki skilgreind nein þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins. Bæjarstjórn skorar á SÁÁ og ríkisvaldið að bæta úr þessu hið fyrsta og felur bæjarstjóra að ræða við samningsaðila og leita leiða til að koma í veg fyrir að þjónustan verði lögð niður.“
Eins og fjallað var um fyrr á árinu er það vegna niðurskurðar að loka eigi göngudeildinni á Akureyri. Væntanlegri lokun hefur verið mótmælt harðlega. Göngudeild SÁÁ hefur verið starfrækt á Akureyri frá 1993 og veitt ráðgjöf og greiningu fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga á Norðurlandi. Þá hefur fólk með spilafíkn einnig fengið aðstoð þar.