Segir sjálfstæðismenn á Alþingi haldna verkkvíða

Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmaður Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi skýtur föstum skotum að sjálfstæðismönnum í pistli á heimasíðu sinni. Hann segir að sjálfstæðismenn á Alþingi séu haldnir verkkvíða, þeir óttist sumarþing, þeir óttist verkin, þeir séu skelfngu lostnir sakir þess möguleika að aðrir nái árangri, það sé óhugsandi. Þá segir Sigmundur Ernir að sjálfstæðismenn séu á móti Vaðlaheiðargöngum, jafnvel líka þingmenn kjördæmisins. Ennfremur segir í pistli Sigmundar Ernis: “Þeir verða væntanlega á móti öllum farmfaramálum ríkisstjórnarinnar, þar á meðal öllum verklegum framkvæmdum. Þeir eru á móti flýtingu samöngubóta á Vestfjörðum og Austfjörðum – og þeir eru líka á móti Vaðlaheiðargöngum; jafnvel líka þingmenn kjördæmisins sem tala fyrir gammbít í málinu; að afla verkinu fjár í forgjöf sem hefði þar með áhrif á samgönguáætlun. Þetta skyldi verða þeirra leið til að tefja verkið, setja það í uppnám.

Og fiskurinn: Sjálfstæðismenn, sem sjálfir hafa lagt til að hóflegt veiðileyfagjald nemi röskum 10 milljörðum króna, munu verða á móti 15 milljarða gjaldi eins og breytingar á frumvarpinu í meðförum atvinnuveganefndar gera ráð fyrir. Þeir eru líka á móti því að skipta kerfinu í tvo potta, þótt þeir hafi sjálfir lagt grunninn að því kerfi á valdatíma sínum fyrir hrun; þeir vilja allan aflann í höndum fárra stórútgerða.

Og ramminn: Virkja bara sem mest, sem fyrst, sem stærst … enda þótt stóriðjan færi ennþá innan við einu prósenti þjóðarinnar atvinnu. Í þessu ljósi sýnist þeim framkvæmdaáætlun stjórnvalda, sem gerir ráð fyrir fjölbreytni atvinnutækifæra, vera á að giska húmbúkk og gott ef ekki hlægileg.

Sjálfstæðisflokkurinn veit allt og kann allt. Hann þráir að fara sömu leið og fyrir hrun; fjölga álverum, auka ójöfnuð og efla varðstöðu um sérhagsmuni … Þetta er enda flokkur sem kannast ekki við hrunið nema innan gæsalappa …”

Nýjast