Verkmenntaskólanum á Akureyri var slitið við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi um liðna helgi þar sem 137 nemendur brautskráðust en heildarfjöldi skírteina var 167. Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari VMA varð tíðrætt í ræðu sinni um iðn- og tækninám þar sem hún sagði fordóma ríkja í garð námsins.
„Það er talað um það á hátíðis- og tyllidögum að efla þurfi iðn- og tækninám en fáir útskýra frekar hvað það er og hvað þurfi til. Iðn- og tækninám kallar á meiri tækjabúnað en hefðbundið bóknám. Framhaldsskólar landsins hafa þurft að spara í rekstri og tækjakaup engin ár eftir ár,“ sagði Sigríður.
„En eitt er að bjóða upp á iðn- og starfsnám en annað er að fá ungt fólk til að velja nám í þessum greinum. Kemur þar margt til svo sem fordómar gagnvart iðnnámi og ofuráhersla á stúdentspróf. Oftar en ekki eru það fordómar og þekkingarleysi sem ræður þarna för. Hugmyndum um að vera góður á bókina og fara þá í bóknám og svo að vera handlaginn og fara í iðnnám er enn haldið á lofti. Eins og það sé einhver hindrun í því að eiga gott með að læra á bókina ef hugurinn stefnir í iðnnám. Sá sem er handlaginn getur alveg farið í bóknám ef hugurinn stefnir þangað. Raunveruleikinn er reyndar orðinn sá að iðnnám er orðið mikið tækninám sem krefst leikni og færni í greinum eins og stærðfræði og ensku.
Ýmsir fræðingar hafa haldið því fram að í dag sé helmingur þeirra starfa sem grunnskólabörn dagsins í dag fari í í framtíðinni ekki til og megnið af þessum störfum verði til í tæknigreinum. Skólakerfið hvorki hér á Íslandi né erlendis er að undirbúa þessa þróun og eru það viss vonbrigði í okkar hópi hve lítið t.d. iðn- og starfsnám fær að þróa sig í átt að breyttu samfélagi nú þegar unnið er að breytingum á námsskrám í þessum greinum,“ sagði Sigríður Huld.
Í vetur hefur VMA tekið þátt í verkefninu „Rjúfum hefðirnar - förum nýjar leiðir“. Verkefnið er unnið undir stjórn Jafnréttisstofu og er unnið í samstarfi við Slippinn, Öldrunarheimili Akureyrar, Oddeyrarskóla og leikskólann Lundasel. Sigríður Huld sagði að í verkefninu væri lögð áhersla á að rjúfa hefðir sem tilheyri karla- og kvennastörfum.
„Verkefnið hefur gefið okkur tækifæri til að t.d. kynna námið í háriðn í VMA fyrir strákum á Lundarseli, stelpur í VMA fengu kynningu á störfum í Slippnum og stákar á störfum leikskólakennara. Okkur er öllum hollt að setja upp kynjagleraugun - og við eigum ekkert að vera að taka þau niður þegar við höldum að þau passi ekki,“ sagði Sigríður Huld.