Fjölskylduhátíðin Ein með öllu um verslunarmannahelgina

Mynd/Ein með öllu/Facebook.
Mynd/Ein með öllu/Facebook.

Bæjarhátíðin Ein með öllu fer fram á Akureyri um verslunarmannahelgina. Hátíðin verður glæsileg, líkt og undanfarin ár, með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Sparitónleikarnir færast yfir á Akureyrarvöll, þar sem einnig verður boðið upp á tívólí og fjölbreytt úrval matarvagna. Á svið stíga meðal annars Herra Hnetusmjör, Friðrik Dór, Aron Can, Skandall, Saint Pete, Rúnar Eff, Kristmundur Axel og Tinna Óðins. Aðgangur er ókeypis að tónleikunum á sunnudagskvöldið.

Á laugardagskvöldinu verða tónleikarnir ÖLL Í EINU, einnig á Akureyrarvelli. Tónleikarnir eru ekki hluti af formlegri dagskrá hátíðarinnar og er miðasala í fullum gangi á tix.is. Á tónleikunum koma fram Birnir, Páll Óskar, GDRN, Friðrik Dór, Emmsjé Gauti og hljómsveitin Á móti sól.

Að venju verður líf og fjör í Kjarnaskógi og í miðbænum. „Við ætlum að vera á planinu við ísbúðina niðri í bæ. Þar verður krakkadagskrá yfir daginn, Mömmur og möffins, markaður og fleira. Skógardagurinn í Kjarna verður á sínum stað en sá viðburður er alltaf að stækka. Og svo má ekki gleyma Leikhópnum Lottu, Kampavínshlaupinu, Íþróttaálfinum, Óskalagatónleikunum í Akureyrarkirkju og mörgu fleiru sem við eigum eftir að tilkynna,“ segir Davíð Rúnar hjá Viðburðastofu Norðurlands.

Allar upplýsingar um dagskrá Einnar með öllu má finna á www.einmedollu.is

Nýjast