Útgáfa nýs hlutafjár í Samherja fiskeldi ehf. vegna Eldisgarðs, nýrrar landeldisstöðvar fyrir lax á Reykjanesi, hefur verið stækkuð í 210 milljónir evra úr 125 milljónum evra vegna aukinnar eftirspurnar fjárfesta.
Eldisgarður verður byggður í þremur áföngum. Fullbyggð mun landeldisstöðin framleiða 36.000 tonn af óslægðum laxi árlega sem jafngildir 30.000 slægðum tonnum.
Gengið var frá fjármögnun fyrsta áfanga Eldisgarðs í lok apríl. Hún fólst annars vegar í útgáfu nýs hlutafjár í Samherja fiskeldi ehf. upp á 125 milljónir evra og hins vegar sambankaláni upp á 110 milljónir evra. Þá var greint frá því að til stæði að auka umfang hlutafjárútgáfunnar vegna mikils áhuga á verkefninu. Stækkunin er nú frágengin og hefur verið undirritaður áskriftarsamningur vegna útgáfu nýs hlutafjár fyrir 210 milljónir evra.
Fjármögnun að meðtöldu sambankaláninu er því alls 320 milljónir evra eða rúmir 45 milljarðar króna. Eiginfjárframlag hluthafa vegna fyrstu tveggja áfanga Eldisgarðs liggur nú fyrir sem gerir Samherja fiskeldi kleift að byggja landeldisstöðina hraðar en áður var fyrirhugað. Þannig getur félagið strax hafið undirbúning hönnunar og framkvæmda á öðrum áfanga stöðvarinnar.
Landeldi er fjárfrek þekkingargrein eins og veiðar og vinnsla
Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Samherja fiskeldis ehf., segir að hlutafjárútgáfan sé traustsyfirlýsing og henni fylgi rík ábyrgð.
„Rétt eins og veiðar og vinnsla er fiskeldi á landi þekkingargrein sem krefst mjög mikillar fjárfestingar svo skapa megi úr henni verðmæti. Aukinn áhugi fjárfesta á þessu verkefni er traustsyfirlýsing fyrir Samherja fiskeldi og endurspeglar tiltrú þeirra á Eldisgarði. Því fylgir mikil ábyrgð að taka við fjármunum frá fjárfestum. Þeir ganga út frá því að við stöndum undir henni og það hyggjumst við gera. Ég vil þakka starfsfólki Samherja fiskeldis og samstarfsaðilum okkar fyrir fagmennsku og vel unnin störf í tengslum við þetta verkefni,“ segir Þorsteinn Már.
Eldisgarður, sem hefur verið í þróun frá árinu 2020, verður staðsettur í auðlindagarði HS Orku við Reykjanesvirkjun með aðgang að 100% endurnýjanlegri orku frá virkjuninni. Landeldisstöðin mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisbyggingu með þremur áframeldisstöðvum og sláturhúsi. Jarðvegsframkvæmdir við Eldisgarð hófust í október á síðasta ári og hafa staðið yfir síðan.
Hópur innlendra og erlendra fjárfesta leggur til hlutafjáraukninguna. Þar er um að ræða, auk Samherja hf., framtakssjóðinn AF3 slhf. sem er í rekstri Alfa Framtaks ehf., CCap sem er hollenskt fjárfestingarfélag í fjölskyldueigu, fjárfestingarfélagið Snæból ehf. og sex íslenska lífeyrissjóði: Almenna lífeyrissjóðinn, Festa lífeyrissjóð, Gildi lífeyrissjóð, Lífeyrissjóð verzlunarmanna, LSR og Stapa lífeyrissjóð.
Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og Arctic Securities í Osló voru ráðgjafar Samherja fiskeldis í fjármögnunarferlinu.
Tveggja áratuga reynsla af landeldi
Um 100 manns koma til með að starfa í Eldisgarði og verður meirihluti þeirra þekkingarstörf. Þá mun stöðin njóta fulltingis þeirra 120 starfsmanna og sérfræðinga sem í dag starfa hjá Samherja fiskeldi.
Samherji fiskeldi hefur stundað landeldi á bleikju og laxi með góðum árangri í yfir tvo áratugi. Fyrirtækið er leiðandi í landeldi og er stærsti bleikjuframleiðandi í heimi með um 30% markaðshlutdeild.
Samherji fiskeldi framleiðir í dag um 6.000 slægð tonn af bleikju og laxi. Fullbyggður Eldisgarður mun því fela í sér margföldun á núverandi framleiðslugetu félagsins. Áætlanir gera ráð fyrir að fullbyggð og á fullum afköstum muni landeldisstöðin geta skapað útflutningstekjur upp á um 300 milljónir evra á ársgrundvelli.
Frá þessu er sagf á heimasíðu Samherja í dag.