Undanfarnar vikur hafa borist ábendingar um að akstur hópbifreiða um innbæ Akureyrar valdi ónæði á vissum tímum. Þá hafa rekstraraðilar hópbifreiða bent á skort á aðstöðu við lestun og losun farþega og farangurs. Vegna þessara mála hafa Samtök ferðaþjónustunnar - SAF og sviðstjóri skipulagssviðs Akureyrabæjar verið í samskiptum um leiðir til að leysa fyrrgreindar áskoranir.
Í og við innbæinn á Akureyri er talsvert af söfnum og öðru sem tengjast bæjarferðum sem gerir umferð hópbifreiða um svæðið að einhverju leyti nauðsynlega. Mikið af gistirými er í og við miðbæ Akureyrar sem hefur skapað vandræði við lestun og losun að morgni. Einnig er talsverð uppbygging á gistirými fyrirhuguð sem þarf þjónustu hópbifreiða.
Samtök ferðaþjónustunnar hafa sent erindi til skipulagsráðs og komið á framfæri tillögum og ábendingum um skipulag á flæði umferðar hópbifreiða um Akureyrar og sleppivasa sömu ökutækja víðsvegar um Akureyrarbæ. Akstur hópbifreiða innan Akureyrar var einni til umræðu á fundi bæjarráðs.
Meðal tillagna er að setja þurfi upp sleppisvæði við hótel og gistihús í miðbæ Akureyrar. Þá þurfi að útbúa næstustæði fyrir hópbifreiðar sem hægt væri að nýta að vetri. Eins eru tillögur um að afmarka akstur um miðbæinn, Glerárgötu, Þórunnarstræti og Miðhúsbraut, aka einungis niður Gilið en ekki upp, ekki aka eftir Oddeyrargötu og eins er nefnt að útbúa þurfi sleppivasa víða um bæinn, við Torfunefsbryggju, Hof, og ofan við Akureyrarkirkju.
Samtök ferðaþjónustunnar óska eftir koma á fund með skipulagsráði Akureyrarbæjar og fara yfir framkomnar tillögur og ábendingar. Skipulagsfulltrúa hefur verið falið að hefja vinnu við gerð skipulags fyrir umferð hópferðabíla innan Akureyrar í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og umhverfis- og mannvirkjasvið.
Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista lagði fram bókun í bæjarráði þar sem fram koma að fulltrúar Framóknar hefðu lagt fram tillögu í vetur um að farið yrði í heildarendurskoðun á bílastæðamálum á miðbæjarsvæðinu með þeim sem hlut eiga að máli til að tryggja næg bílastæði og gott flæði fyrir rútubifreiðar vegna mikillar uppbyggingar á svæðinu. „Því var því miður hafnað en eins og þetta erindi, sem er til umræðu hér, sýnir þá er það nauðsynlegt.“