Mokveiði hefur verið hjá strandveiðibátum við Grímsey frá því veiðarnar hófust í byrjun maí. Uppistaða aflans er vænn þorskur, mest 5-8 kg, en einnig veiðist talsvert af ufsa. Síld er í vöðum nærri eyjunni og stórhveli elta hana nást upp í landsteina. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar.
„Elstu menn muna ekki annað eins,“ segir Jóhannes Henningsson útgerðarmaður og íbúi í Grímsey. „Hér er hvert pláss í höfninni fullskipað og menn bíða í röðum eftir löndunarplássi.“
Veitt er allt í kringum Grímsey og kemur fyrir að menn séu um tvo tíma að fylla bátinn sinn. Nú bíða sjómenn spenntir eftir því hvað ríkisstjórnin ákveður um framhaldið en strandveiðitímabilinu er að ljúka.
Aflinn er ísaður og seldur á fiskmarkaði Grímseyjar en síðan fluttur til lands. Þessi umsvif hafa mikið að segja fyrir eyjuna og lífið þar. Flest gistipláss eru fullnýtt og mikið að gera á veitingastöðum í Grímsey. „Hér hafa verið 24-33 landanir á dag en áður voru þær mest 24 á dag,“ segir Steinn Karlsson hafnarvörður í Grímsey.