Sauðburður kominn vel á veg

Litlu lömbin vekja jafnan mikla athygli.
Litlu lömbin vekja jafnan mikla athygli.

Sauðburður er kominn vel á veg og hefur hann víðast gengið vel, að sögn Ólafs G. Vagnssonar, ráðunauts hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar.  “Sauðburður hefst að venju um mánaðarmótin apríl-maí. Tímabilið nær yfir maímánuðinn, en þó eru alltaf bændur sem taka þátt í sumarslátrun á lömbum, og á þeim bæjum hefst sauðburður gjarnan fyrr, eða í síðustu tveim vikum aprílmánaðar. Þeim lömbum er slátrað í ágúst en ekki september-október. Sauðburður á einstaka bæjum stendur yfir í um 3 vikur en allt í allt stendur hann yfir í 4 til 5 vikur,” segir Ólafur.

Þrátt fyrir leiðinlegt veðurfar hefur sauðburður víðast gengið að óskum en bændur hafa þurft að hafa féð inni vegna kulda og frosts. Það að hafa sauðfé inni of lengi eftir að ærnar bera getur því miður skapað hættu á alls kyns sjúkdómum. Það hefur ekki verið mikið um sjúkdóma í ár en þó hefur Ólafur fengið fregnir af nokkrum tilfellum undanfarna daga. “Það geta verið sjúkdómar eins og júgurbólga eða alvarlegri sjúkdómar þar sem lömb deyja í móðurkviði eða fæðast mjög líflítil. Þetta getur stafað af smitefni frá villiköttum sem setjast að í heyhlöðum og  skíta í fóðrið. Efnið berst svo til kindanna og drepur þar allt upp í tugi lamba en þetta er sjaldgæft og gerist aðeins á einstaka bæjum,” segir Ólafur.

Frjósemin hefur verið í sífelldri aukningu á síðustu árum, flestar kindur eru ein- eða tvílembdar en einnig hafa verið dæmi um þrílembdar ær og eru til stöku tilfelli fjórlembdar ær. “Menn hafa auðvitað gaman af því að eiga mörg lömb og reyna því að leyfa lömbum frjósamra kinda að lifa. Frjósemin er nefnilega ættgeng hjá báðum kynjum. Einnig á betra fóður þátt í því að auka frjósemi og það að gefa kindunum gott fóður á fengitímanum gefur manni fleiri lömb.”

Ólafur segir að þetta leiðindaveður sem plagaði landsmenn á dögunum hafi sem betur fer ekki haft stórtæk áhrif á sauðburðinn. “Við getum þakkað Veðurstofunni fyrir góðan fyrirvara en það er einmitt það sem bændur þurfa. Þeir fengu góðan tíma til að undirbúa fjárhúsin og gera allt sem þurfti áður en veðrið skall á,” segir Ólafur.

Kalt veðurfar fer ekki vel með tún en þau komu vel undan vetri, sögn Ólafs. “Það er lítið um kalskaða en það er vegna þess að aldrei lágu svell mjög lengi í einu þennan veturinn. Frostið fyrr í mánuðinum hægði hinsvegar á vexti gróðurs en það ætti ekki að hafa mikil áhrif seinna í sumar.” Ólafur segir að í Eyjafirði sé ekki mikið um sauðfénað miðað við hvernig sauðfjárrækt er á landsvísu. “Þó eru nokkur stór bú hér á svæðinu, aðallega í Grýtubakkahreppi, fremst í Eyjafirði og Hörgárdal,” segir Ólafur.

Nýjast