Alþjóðleg ráðstefna um hreyfiveiki haldin á Akureyri

Mynd: SAk/Facebook.
Mynd: SAk/Facebook.

Í dag hófst önnur alþjóðlega ráðstefnan um hreyfiveiki (International Congress on Motion Sickness) þar sem sérfræðingar víðs vegar að úr heiminum koma saman til að ræða nýjustu rannsóknir og lausnir á þessu viðfangsefni.

Hreyfiveiki, á sér rætur í truflunum í jafnvægiskerfi líkamans, einkum í innra eyra. „Ég hef rannsakað sjóveiki í mörg ár, í því skyni að reyna að skilja hvað er að gerast þegar einstaklingur verður sjóveikur,“ segir Hannes Petersen, taugaskurðlæknir, einn aðalskipuleggjenda ráðstefnunnar. Hannes hefur rannsakað jafnvægiskerfið um árabil og skrifaði meðal annars doktorsritgerð um starfsemi innra eyrans.

Á ráðstefnunni geta gestir fengið að prófa sérstakan sjóveikihermi sem líkir eftir þeim aðstæðum sem geta valdið hreyfiveiki. Markmiðið er að skilja betur hvað gerist í líkamanum þegar hreyfiveiki kemur fram. „Ný tækni er mjög gagnleg, enda getur verið erfitt að flytja rannsóknarstofuna út á sjó, sérstaklega fyrir rannsakendur sem eru sjálfir oftast landkrabbar,“ segir Hannes.

Sjóveiki er hins vegar ekki eina tegund hreyfiveiki sem verður til umfjöllunar, heldur er einnig fjallað um sjónframkallaða hreyfiveiki með áherslu á sýndarveruleika og/eða netveiki (cybersickness) og bílveiki í sjálfkeyrandi bílum, svo dæmi séu tekin.
Ráðstefnan er haldin í samvinnu við European Society for Clinical Evaluation of Balance Disorders og stendur yfir dagana 12.–15. ágúst í Hofi. Ráðstefnan er ætluð bæði vísindamönnum og almenningi sem hefur áhuga á málefninu. Á bilinu 60–70 manns eru skráð til þátttöku á ráðstefnunni í ár.
Hægt er að fræðast nánar um ráðstefnuna hér 

Nýjast