Styrkleikar í fyrsta sinn á Húsavík

Styrkleikarnir fara fram í fyrsta sinn á Húsavík um helgina.
Styrkleikarnir fara fram í fyrsta sinn á Húsavík um helgina.

Styrkleikar krabbameinsfélagsins fara fram á Húsavík dagana 15.-16. ágúst n.k. og verður viðburðurinn settur klukkan 16 á föstudag við Framhaldsskólann á Húsavík (FSH).

Styrkleikarnir eru fjölskylduvænn viðburður og býður upp á einstaka upplifun fyrir alla, óháð aldri. Þeir eru öllum opnir sem vilja sýna stuðning í verki fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Þjónusta Krabbameinsfélagsins er öllum að kostnaðarlausu og gerir verkefni eins og Styrkleikarnir meðal annars, félaginu kleift að halda út þjónustunni.

Styrkleikarnir byggja á liðum sem fjölskyldur, fyrirtæki, íþróttafélög, félagasamtök eða aðrir skrá sig í . Þeir snúast síðan um að hafa fulltrúa hvers liðs á hreyfingu (ganga, hlaupa) með boðhlaupskefli, sólarhringinn sem viðburðurinn stendur yfir og er um leið táknrænn fyrir að engin hvíld fæst frá krabbameini.

Styrkleikarnir eru ekki keppni heldur snúast þeir um samstöðu, samveru og samtakamátt liðanna í að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein.

Stendur fyrir skipulagningu

Helena Eydís Ingólfsdóttir átti hugmyndina að því að fá Styrkleikana til Húsavíkur og hefur átt veg og vanda að skipulagi viðburðarins ásamt góðum hópi fólks.

„Í grunnin snýst þetta um að vekja samkennd og samhug með þeim sem hafa greinst með krabbamein á einhverjum tímapunkti en svo er þetta líka söfnun fyrir krabbameinsfélagið,“ segir Helena og bætir við að fólk búi til eða gangi í lið sem síðan safni áheitum.

„Svo gengur hvert lið í sólarhring, þ.e. liðsfélagar skiptast á að ganga og eru með boðhlaupskefli og halda göngunni á hreyfingu í einn sólarhring,“ segir hún.

Fjölbreytt dagskrá

Í tengslum við gönguna fléttast alls kyns viðburðir og dagskrá sem er allrar athygli verð. Dagskráin hefst á föstudag klukkan 16 með setningarathöfn við FSH þar sem göngunni verður hleypt af stokkunum.

„Þá verðum við með kvöldskemmtun og ljósastund á föstudagskvöldið. Hugljúf stund þar sem fólk verður búið að skreyta luktir og það er kveikt á þeim og þeim raðað upp,“ segir Helena og bætir við að á laugardagsmorgun þurfi væntanlega að hlúa að göngufólkinu.

„Já, við reiknum með að það þurfi að liðka göngufólkið og hressa það við. Við verðum með smá leikfimi og síðan barnadagskrá m.a. bangsaspítala sem verður komið upp á svæðinu við Framhaldsskólann,“ segir Helena.

Heiðursgestum boðið til hádegisverðar

Á laugardag verður reynsluboltum boðið til hádegisverðar klukkan 11:30 en það eru þau sem greinst hafa með krabbamein.

„Einn mikilvægasti viðburðurinn í tengslum við þetta er hádegisverður fyrir þá sem hafa greinst með krabbamein og þau geta boðið einum aðstandanda með sér. Þeim er boðið sem heiðursfélögum að þessum viðburði. Og þar verður líka létt dagskrá, erindi og tónlist,“ segir Helena og bætir við að styrkleikunum verði formlega slitið rétt fyrir fjögur og í kjölfarið verði síðasti hringurinn genginn.

Tvær gönguleiðir verða í boði á styrkleikunum. Önnur verður miðsvæðis í bænum, gengið frá Framhaldsskólanum, niður Stóragarð og inn Ásgarðsveg. Hin gönguleiðin er eftir Stóragarði, upp Auðbrekku, eftir skógræktinni og niður með Ásgarði.

 Í fyrsta sinn á Húsavík

„Styrkleikarnir sem slíkir eru í raun 40 ára viðburður og hafa verið haldnir víða um heim. Þetta er búið að vera á Íslandi í þrjú ár en aldrei áður verið haldið hér á Húsavík. Ég fékk þessa hugmynd sl. haust og fékk Berglindi Júlíusdóttur með mér í lið við að koma þessu á laggirnar í þetta eina skipti. Svo sjáum við til hvað verður í framhaldinu. Við fengum svo til liðs við okkur mjög góðan hóp af fólki sem ýmist hefur sjálft greinst með krabbamein og er laust við það í dag eða fólk sem hefur átt aðstandanda. Við erum búin að vera um 15 manns að skipta verkum á milli okkar við að undirbúa þetta og erum að verða mjög spennt að sjá hvernig þetta fer af stað á föstudaginn,“ segir Helena.

Liðin sem skráð eru til þátttöku eru hvert um sig með styrktarsíðu sem hægt er að heimsækja rafrænt og heita á hópinn, ekki ósvipað því sem fólk þekkir frá Mottumars og Reykjavíkurmaraþoninu. En einnig er hæg að skrá sig til leiks sem einstaklingur og ganga til liðs við „landsliðið“

„Við settum okkur markmið um að safna einni milljón í tengslum við viðburðinn hér á Húsavík og við erum bara komin mjög nálægt því nú þegar. Þannig að ég er bjartsýn á að við náum þessu markmiði og rúmlega það,“ segir Helena að lokum.

Myndtextar:

Helena Eydís Ingólfsdóttir.

 

 

 

Nýjast