Akureyrarbær hefur sent frá sér tilkynningu vegna fyrirhugaðs flutnings höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar en ákvörðun ríkisstjórnarinnar er umdeild. Yfirlýsing bæjarins er eftirfarandi: "Forsvarsmenn Akureyrarbæjar skilja þær áhyggjur sem starfsmenn Fiskistofu hafa lýst yfir í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að flytja höfuðstöðvar stofnunarinnar til Akureyrar og leggja áherslu á að sátt náist um málið. Þó Akureyrarbær hafi ekki beina aðkomu að málinu mun bærinn leggja sitt að mörkum til að þessar breytingar gangi sem best fyrir sig. Bærinn mun einnig taka saman efni til upplýsingar fyrir alla þá sem vilja kynna sér það sem Akureyri hefur upp á að bjóða og liðsinna hverjum þeim sem ákveður að fylgja nýrri starfstöð. Upplýsingar um þetta verða aðgengilegar á vef bæjarins.
Akureyrarbær hefur lengi lagt áherslu á uppbyggingu opinberra starfa í bænum enda séu þar allar forsendur til staðar fyrir slíka starfsemi. Í bænum er öflugt og fjölbreytt samfélag sem tryggir góð lífsgæði allra sem þar búa. Þó svo Akureyrarbær hafi ekki komið að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar er það skoðun bæjaryfirvalda að Akureyri sé ákjósanlegur staður fyrir starfsemi stofnunarinnar. Innan bæjarins er mikil og sterk fagleg þekking á sjávarútvegi vegna langrar útgerðasögu bæjarins. Þá hefur sjávarútvegsfræði verið kennd við Háskólann á Akureyri síðan 1990 og þannig byggst upp fræðileg sérþekking á sjávarútvegi.
Það er kappsmál allra að starfsemi Fiskistofu verði sem öflugust og því er mikilvægt að umræða um hana sé faglegum forsendum en endi ekki í karpi á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Á Akureyri eru allar forsendur til þess að stofnunin geti eflst enn frekar og munu bæjaryfirvöld gera það sem það sem í þeirra valdi stendur til að styðja við starfsemi hennar.