Samtök iðnaðarins loka skrifstofunni á Akureyri

Skrifstofu Samtaka iðnaðarins á Akureyri hefur verið lokað og eina starfsmanninum, Ásgeiri Magnússyni, verið sagt upp. Hann hefur þegar látið af störfum. Ásgeir sagði að hér væri um sparnaðarráðstöfun að ræða en að það hafi komið sér mjög á óvart að þessi leið skyldi farin.  

"Vissulega gat maður alltaf reiknað með því að það yrðu einhverjar breytingar, miðað við það ástand sem nú ríkir. Ég átti samt ekki von á því að eina starfsemin utan höfuðborgarsvæðisins yrði lögð niður." Ásgeir sagði að fyrirtækjum á þessu svæði yrði sinnt hér eftir frá skrifstofunni í Reykjavík. Hann sagði að staða fyrirtækja í byggingariðnaðinum á svæðinu væri erfið og því hefði þurft að auka frekar við þjónustuna en hitt. "Öllum þessum stærri verkefnum hér í þessum byggingargeira lýkur í lok júlí og þótt talað sé um ýmsar framkvæmdir er ekki fast í hendi. Þannig að staðan er slæm." Ásgeir starfaði bæði á Akureyri og að ákveðnum verkefnum fyrir Samtök iðanðarins fyrir sunnan. Hann sagði að næsta skref hjá sér væri að fara að leita að vinnu.

Nýjast