Sjóðurinn hafði ráðgert að laga sína tryggingafræðilegu stöðu með því að halda réttindum og lífeyri óbreyttum þar til vísitala neysluverðs hafði hækkað um 5%, sem hefði jafngilt 5% rýrnun að raunvirði. Fjármálaráðuneytið féllst ekki á þessa aðferð sjóðsins og voru því ekki gerðar breytingar á réttindum á árinu 2010. Tryggingafræðilegur halli sjóðsins jókst af þessum sökum á árinu úr -10,8% í -11,7%. Þessi halli er yfir þeim 10% mörkum, sem leyfð eru lögum samkvæmt, en þó undir bráðabirgðaákvæði laganna, sem segir að halli megi vera allt að 15% tímabundið. Til að jafna þennan halla með ávöxtun einni saman þyrfti raunávöxtun sjóðsins að vera 4,25% til frambúðar. Ekki þykir ráðlegt að reiða sig á að slík ávöxtun náist og því eru lífreyrisgreiðslur skertar. Hrein eign Tryggingadeildar til greiðslu lífeyris í árslok var 105.236,8 milljónir króna og hafði hækkað um 8.400,6 milljónir króna eða 8,7% frá árinu á undan.
Eins og fram kom í skýrslu stjórnar í fyrra þá urðu mistök við kröfulýsingu sjóðsins á hendur Straumi-Burðarási þegar lögmannsstofa sem vann fyrir sjóðinn lýsti kröfunni of seint. Mikið starf var lagt í að reyna að fá kröfuna samþykkta af öðrum kröfuhöfum, í tæka tíð, áður en til nauðasamninga kæmi. Var bæði innlend og erlend lögmannsstofa fengin til þessa verks. Allur kostnaður af verkinu greiddist af lögmannsstofu þeirri er gerði mistökin. Vel gekk að afla samþykkis meðal íslenskra kröfuhafa, en útlendingarnir voru erfiðari. Þó virtist um tíma vera líklegt að samþykki tilskilins meirihluta fengist, en eftir að viðskipti hófust með kröfurnar fóru þeir möguleikar forgörðum. Sjóðurinn rekur nú mál fyrir dómi vegna kröfu sjóðsins á hendur ALMC hf. (áður Straumi-Burðarási) um að fá viðurkennda kröfu sína á bankann. Tapi sjóðurinn málinu mun það ekki hafa áhrif á stöðu hans eða afkomu þar sem krafan hefur verð færð niður að fullu, segir í árssýrslunni.
Mikil óvissa ríkir um mat á afleiðusamningum sjóðsins og uppgjör þeirra við gömlu bankana. Óvissa ríkir um hvort samningarnir eru gildir og ef svo er hvaða viðmið skuli nota við uppgjör þeirra og hvaða vexti skuld vegna slíks uppgjörs skuli bera, ef hún er fyrir hendi. Þrátt yfir langvarandi samningaviðræður um þetta efni, þá hefur ekki náðst samkomulag um uppgjörið. Verði endanleg niðurstaða í verulegum atriðum frábrugðin því mati sem gengið er út frá í ársreikningnum mun það hafa samsvarandi áhrif á afkomu sjóðsins og efnahag.
Um áramótin voru 26% af eignum sjóðsins í erlendum gjaldmiðlum. Ekki eru möguleikar á að verja þessa stöðu fyrir sveiflum í gengi íslensku krónunnar á meðan gjaldeyrishöft eru við lýði. Þessi opna staða hefur því áhættu í för með sér. Sjóðurinn telur þó líklegt að þessi áhætta sé hófleg á meðan gjaldeyrishöft eru í gildi, enda er slíkum höftum fyrst og fremst ætlað að koma í veg fyrir frekara gengisfall krónunnar.
IÐGJÖLD OG SJÓÐFÉLAGAR
Alls greiddu 18.415 sjóðfélagar hjá 2.488 launagreiðendum iðgjöld til Tryggingadeildar sjóðsins á árinu 2010. Fjöldi virkra sjóðfélaga sem greiðir iðgjöld í mánuði hverjum var 12.712. Iðgjöld ársins, að teknu tilliti til framlags ríkisins til jöfnunar örorkubyrði, námu 5.345 milljónum króna og hækkuðu um 9,4% frá fyrra ári. Iðgjöld til sjóðsins lækkuðu eftir árið 2007, en hafa síðan tekið að vaxa hægt og rólega síðan. Alls greiddu 50 stærstu launagreiðendurnir um 50% af iðgjöldum til sjóðsins og þar er Akureyrarbær stærstur.
Talsverðar breytingar hafa orðið á atvinnugreinaskiptingu síðustu ár. Vægi bygginga- og mannvirkjagerðar hefur minnkað mikið, en sjávarútvegur og opinber þjónusta aukist. Meðalaldur greiðenda til sjóðsins er tæplega 36 ár og hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár. Stærsti hópurinn er fólk milli 20-29 ára, en þar á eftir hópurinn 30-39 ára.
Lífeyrisgreiðslur Tryggingadeildar námu alls 2.978 milljónum króna og jukust um 9% frá fyrra ári. Á árinu fékk sjóðurinn greiddar 303,4 milljónir króna frá ríkinu vegna jöfnunar á örorkubyrði milli lífeyrissjóða. Greiðslan, sem jafngildir um 37% af örorkulífeyrisgreiðslum sjóðsins, er færð sem aukaframlag meðal iðgjalda og þannig til hækkunar á eign sjóðsins. Lífeyrisbyrði sjóðsins sem hlutfall af iðgjöldum var 55,9% samanborið við 56,2% á árinu 2009. Á liðnu ári hófu 385 sjóðfélagar töku ellilífeyris, 283 einstaklingar fengu úrskurðaðan örorkulífeyri, 80 makalífeyri og 70 barnalífeyri. Þá fengu 148 einstaklingar eingreiðslu lífeyris þar sem um lítil réttindi var að ræða. Lífeyrisþegar voru í árslok 6.433 og hafði fjölgað um 7% frá fyrra ári.
Rekstrarkostnaður Tryggingadeildar nam 101 milljón króna samanborið við 63,6 milljónir króna á árinu 2009 og hækkaði þannig umtalsvert milli ára. Undanfarin ár hefur sjóðurinn fengið talsverðar þóknanir vegna endurgreiðslna á iðgjöldum til útlendinga, sem búsettir eru utan hins Evrópska efnahagssvæðis og má fyrst og fremst rekja þær til stórframkvæmda á Austurlandi. Greiðslu þessara þóknana, sem færðar hafa verið til lækkunar á rekstrarkostnaði, lauk að mestu á árinu 2009. Skýrir þetta stærstan hluta kostnaðaraukans milli ára, en einnig var nokkur aukning á aðkeyptri vinnu sérfræðinga. Fjárfestingargjöld deildarinnar námu 51,9 milljón króna samanborið við 44,1 milljónir króna árið áður og hækkuðu fjárfestingargjöld því um 17,6% milli ára. Heildarkostnaður Tryggingadeildar var þannig 152,8 milljónir króna eða sem svarar 0,15% af heildar eignum deildarinnar samanborið 0,14% króna á árinu 2009.
Iðgjöld til Séreignardeildar námu samtals kr. 174,4 millj. samanborið við 245,5 millj. kr árið á undan, sem er lækkun um 29% frá fyrra ári. Sé litið framhjá flutningum til og frá deildinni námu iðgjöldin 186,5 millj. kr. samanborið við 182 millj. árið áður, sem er hækkun um 2,4% milli ára. Að jafnaði greiddu 985 mánaðarlega iðgjöld til deildarinnar, samanborið við 1.018 árið 2009.
Útgreiðslur úr Séreignardeild, bæði vegna lífeyris og sérstakrar útborgunar, námu 315,2 millj. kr. samanborið við 344,8 millj. kr. árið áður, sem er 8,6% lækkun milli ára. Þar af voru lífeyrisgreiðslur samtals 114,5 millj. samanborið við 173,9 millj. kr. árið áður og sérstök útgreiðsla séreignar var 200,7 millj. samanborið við 170,9 millj. árið áður. Fjöldi rétthafa sem fékk greiddan lífeyri á árinu var 409 samanborið við 509 árið áður. Rétt er að hafa í huga að árið 2009 var fyrsta árið sem taka mátti út lífeyri í einni tölu eftir að 60 ára aldri er náð, en áður þurfti að dreifa greiðslum á þann tíma, sem var frá töku til 67 ára aldurs. Árið 2009 voru sett lög sem heimiluðu tímabundna útborgun séreignar. Gat hámarksútgreiðsla hæst numið 1 milljón kr., sem síðan var hækkað í 2,5 milljónir kr. Lögin voru enn framlengd árið 2010 og heimiluð fjárhæð hækkuð í 5 millj. kr. Þetta leiddi til aukinnar úttektar úr deildinni, en þessum sérstöku úttektum mun að mestu ljúka á árinu 2011.