Samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi austurhluta miðbæjarins

Bæjarstjórn Akureyrar samþykkti á fundi sínum í kvöld, með átta atkvæðum gegn þremur, tillögu meirihluta skipulagsnefndar að auglýsa tillögu að deiliskipulagi austurhluta miðbæjarins. Bæjarbúar munu því fá tækifæri á næstu vikum að segja skoðun sína á þeim hugmyndum sem þar koma fram. Töluverðar umræður urðu um málið í bæjarstjórn, þar sem ýmis sjónarmið komu fram.  

Áætlaður kostnaður við 1. áfanga er um 858 milljónir króna en tekjur af gatnagerðargjöldum á öllum byggingareitum svæðisins eru áætlaðar rúmar 896 milljónir króna. Ýmsar breytingar hafa verið gerðir á tillögunni frá því hún var kynnt almenningi á Amtsbókasafninu í febrúar á síðasta ári og tillit tekið til fjölda athugasemda. Ekki er gert ráð fyrir því að sinni, að byggja íbúðir við Torfunefnsbryggju austan Glerárgötu. Þá gerir tillagan ráð fyrir því að byggðar verði 117 íbúðir á svæðinu, í stað 155 íbúða og að hæð bygginga verði 2-5 hæðir. Heildarbyggingarmagn innan deilskipulagssvæðisins er nú um 28.000 fermetrar en var áður 38.000 fermetrar. Þar af eru íbúðir um 14.500 fermetrar og um 13.500 fermetrar undir verslun og þjónustu. Jafnframt er gert ráð fyrir bílakjöllurum og bílastæðum. Þá sýna aðilar því enn áhuga að byggja hótel á byggingareit vestan Glerárgötu, á móts við menningarhúsið Hof.

Umfangsmiklar breytingar verða gerðar á Glerárgötunni samkvæmt tillögunni, hún færð til austurs, akreinum fækkað úr 4 í 2 og götunni breytt í 30 km götu. Vegagerðin hefur samþykkt fyrirhugaðar breytingar á götunni fyrir sitt leyti en um er að ræða stofnbraut.

Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir nýrri tengingu með síki sem brýtur upp miðbæinn og snýr honum í raun austur-vestur um leið og nýtt landslag er mótað. Sjórinn er dreginn inn í miðbæinn með síkinu sem mun liggja frá Bótinni að Skipagötu og síðan heldur tengingin áfram þaðan að gamla Apótekinu með tjörn. Gert er ráð fyrir opnu í húsaröðina norðan við Apótekið til að skapa skýra göngutengingu milli Skátagils, Hafnarstrætis, tjarnar, síkis og sjávar.

Vinna við deiliskipulagið hefur staðið yfir í rúmlega tvö ár og er unnin á grundvelli aðalskipulags 2005-2018 og samkvæmt stefnumörkun verðlaunatillögu Graeme Massie. Frumhugmyndir verksins eiga rætur að rekja til íbúaþingsins Akureyri í öndvegi, sem haldið var árið 2004. Meginmarkmið deiliskipulagstillögunnar er að skapa aðstæður fyrir uppbyggingu sem kemur til móts við og fellur að núverandi byggð. Fjölga íbúðum í miðbænum. Móta aðlaðandi miðbæjarrými sem eykur gæði byggðarinnar. Styrkja Akureyri sem svæðiskjarna og höfuðstað Norðurlands og gera miðbæ Akureyrar enn áhugverðari áfangastað ferðamanna og gesta.

Skipulagssvæðið nær yfir helsta viðskipta- og verslunarkjarna miðbæjarins og afmarkast að sunnan af Kaupvangsstræti og að norðan af Strandgötu, að vestan af Hafnarstræti og að austan af ströndinni og lóð Hofs.

Nýjast