Samræmd haustfrí í öllum skólum bæjarins?

"Það er allt hægt ef vilji er fyrir hendi," segir Gunnar Gíslason skólafulltrúi Akureyrarbæjar í tilefni af grein Hermínu Gunnþórsdóttur í Vikudegi nýlega, þar sem kallað var eftir samræmingu á haustfrí í skólum bæjarins, leik-, grunn-, og framhaldsskólum. Gunnar segir að nú þegar sé búið að samræma vetrarfrí leik-, og grunnskóla eftir hverfum bæjarins. Enn sem komið er falli þessir frídagar ekki á sömu daga í öllum leik,- og grunnskólum, en vissulega megi skoða hvort hægt sé að hafa þann hátt á til framtíðar.

Hver og einn skóli hafi þó ákveðið frelsi til að ákveða sína frídaga. Ákveðið var til að byrja með að frídagarnir séu hinir sömu í hverju hverfi fyrir sig hvað leik- og grunnskóla varðar. Gunnar segir að það sjónarmið sem fram komi í grein Hermínu, að allir skólar bæjarins, frá leikskóla og upp í framhaldsskóla, taki vetrarfrí sömu daga verði vegið og metið, „og þetta hefur vakið upp þá spurningu hvort hægt er að koma þessu við. Við munum óska eftir fundi með skólameisturum framhaldsskólanna til að ræða þetta mál," segir hann.

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari í Verkmenntaskólanum á Akureyri, segir lítið svigrúm til að gefa leyfi utan þeirra lögbundnu, en sá háttur hafi þó verið hafður á að gefa einn frídag á haustönn, kenndan við afmæli Helga magra, og annan á vorönn í tilefni af afmæli konu hans, Þórunnar hyrnu. „Við höfum reynt að hafa hliðsjón af vetrarfríum í grunnskólum bæjarins en ekki síður þurfum við að taka tillit til þeirra fjölmörgu nemenda sem eiga heimili jafnvel í öðrum landshlutum og eiga þess ekki kost að skreppa heim nema við slíkt tækifæri. Nú í haust stóð þannig á að við þurftum að hafa löngu helgina í tengslum við stóru matvælasýninguna sem fram fór hér í VMA - og því urðum við að fella niður kennslu á föstudegi. Í framtíðinni munum við sem oft hingað til reyna að hafa hliðsjón af grunnskólunum hér í bæ - enda eiga líka margir kennara okkar börn á þeim aldri," segir Hjalti Jón.

Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, segir að starfsfólk skólans ákveði að vori hvort það vilji stytta sumarfrí um tvo daga og hefja skólahald tveimur dögum fyrr. Það er því ekki um fast frí að ræða eða niðurfellingu á skólastarfi. „Það er reynt að hafa fríið um miðja haustönn en það er ekki bundið ákveðnum dögum. Það ætti því að vera auðvelt að fella okkar frí að grunnskólum sem margir eru með frí í fyrstu eða annarri viku nóvember," segir Jón Már. 


Nýjast