Samráð haft við gerð fjárhags- áætlunar Akureyrarbæjar

Meirihlutinn í bæjarstjórn Akureyrar bauð minnihluta til samstarfs vegna vinnu við  gerð fjárhagsáætlunar líkt og gert var á liðnu ári en þá tóku öll framboðin þátt í gerð og samþykkt áætlunarinnar. Oddvitar allra framboða tóku þátt í í gerð áætlunarinnar, en áhersla var  lögð á að verja grunnþjónustu í bæjarfélaginu, fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu.   

Jafnframt var horft sérstaklega til þess að ekki þurfi að koma til uppsagna vegna þeirra aðgerða sem gripið verður til. Jóhannes Bjarnason oddviti Framsóknarflokks segir vinnubrögð af þessu tagi til fyrirmyndar. „Það er auðvelt að setja sig í stellingar og gagnrýna niðurskurð, en nú unnum við að þessu verkefni saman og allir höfðu að leiðarljósi sama markmiðið.  Með þessum hætti eru heldur ekki skilin eftir nein ágreiningsmál.  Það er gríðarlega mikilvægt á þessum erfiðu tímum," segir Jóhannes.

Baldvin H. Sigurðsson oddviti Vinstri grænna í bæjarstjórn tók undir orð Jóhannesar og benti á að erfiðleikar steðjuðu að og því mikilvægt að fólk snéri bökum saman.  Áætlunin væri vissulega tæp, það mætti ekki mikið út af bregða, „en ef fram heldur sem horfir ættum við að lifa þetta af," segir hann.

Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri segir fulla ástæðu til að þakka oddvitum, bæjarfulltrúum og nefndarmönnum allra framboða fyrir gott samstarf við áætlunargerðina til þessa.

Nýjast