Samningar um byggingu hjúkrunarrýma á lokastigi

Félagsmálaráðuneytið er að leggja lokahönd á samninga við níu sveitarfélög um byggingu á 360 hjúkrunarrýmum, þar af 45 hjúkrunarrými á Akureyri. Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri á Akureyri segir að vonir standi til þess að þess að hægt verði að skrifa undir samning mjög fljótlega.  

"Gert er ráð fyrir því að Akureyrarbær taki lán hjá Íbúðalánasjóði vegna verkefnisins en ríkið skuldbindi sig til þess að greiða leigu sem svari til 85% kostnaðar á 40 árum. Endanleg ákvörðun um staðsetningu liggur ekki fyrir en sú ákvörðun verður líka tekin innan skamms," segir Hermann Jón.  Áætlaður kostnaður við þessa framkvæmd er 1.100-1.200 milljónir króna.

Hin sveitarfélögin átta sem koma að verkefninu eru; Mosfellsbær, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnanes, Reykjanesbær, Borgarnes og Egilsstaðir. Heildarkostnaður við byggingu allra 360 hjúkunarrýmanna er áætlaður um 9 milljarðar króna og er talið að um 1.200 ársverk í byggingariðnaði skapist við framkvæmdirnar.

Nýjast