Fyrirtækið Bílar og fólk ehf. Sterna og Vegagerðin hafa gert með sér samkomulag um framlengingu sérleyfisaksturs vegna ársins 2011. Meðal annars er um að ræða aksturinn á milli Reykjavíkur og Akureyrar og helst sú áætlunarleið alveg óbreytt. Í dag eru farnar 7 ferðir á viku frá Sauðárkróki til Siglufjarðar og fækkar þeim niður í 3 ferðir og verður ekið á þriðjud-, föstud- og sunnudögum.
Á þriðjud. og föstudögum er farið frá Siglufirði kl. 07:45 og á sunnudögum kl. 15:00. Frá Sauðárkrók verður farið kl. 13:55 á þriðjud. og föstudögum en kl. 19:55 á sunnudögum. Þessar áætlunarferðir eru farnar í veg fyrir rútuna á milli Akureyrar og Reykjavíkur og eru til reynslu fram að fyrsta maí og verður þeim þá hætt ef þær verða ekki nýttar með einhverjum hætti.
Reykjavík - Staður - Hólmavík.
Ein ferð í viku er farin norður Strandir frá Reykjavík til Hólmavíkur og verður því hætt um áramótin. Seinasta ferðin verður farin þann 30. desember n.k.
Reykjavík - Borgarnes - Búðardalur - Króksfjarðarnes - Hólmavík.
Einnig er ferðum fækkað í Dalina, frá Reykjavík til Búðardals og ekki verður lengur ekið í Bjarkarlund og Reykhóla. Í staðin verður farið þrisvar í viku um Arnkötludalinn til Hólmavíkur. Þessi leið verður ekin þrisvar í viku hverri og er farið frá Reykjavík á þriðjud. og föstudögum kl. 08:30 og sunnudögum kl. 13:00. Frá Hólmavík er farið kl. 13:00 á þriðjud. og föstudögum og kl. 17:00 á sunnudögum.
Reykjavík - Borgarnes - Reykholt, Reykjavík - Selfoss - Reykholt - Laugarvatn, Reykjavík - Selfoss - Flúðir og Reykjavík - Þorlákshöfn.
Nýtt fyrirkomulag verður á leiðinni Borgarnes - Reykholt og þar verður tekin upp ný þjónusta með þeim hætti að farþegar sem ætla sér að nýta rútuna á þessari leið verða að panta far með ákveðnum fyrirvara. Farið er á föstudögum og sunnudögum frá Reykjavík í Reykholt og ef enginn hringir og pantar far þá verður ekki farið í þá áætlunarferð. Ferðirnar verða samt alltaf auglýstar áætlunarferðir þannig að sá sem hringir er bundinn þeirri tímasetningu sem auglýstur er.
Sams konar breytingar verða að hluta til á leiðunum Reykjavík - Þorlákshöfn, (Reykjavík) - Selfoss - Flúðir og (Reykjavík) - Selfoss - Reykholt - Laugarvatn. Vikulega eru farnar sjö ferðir á þessa staði og er upphringiþjónusta á ferðirnar sem farnar eru á mánudögum til fimmtudags svo og á morgunferðirnar á föstudögum. Ferðirnar sem auglýstar eru síðdegis á föstudögum og sunnudögum verða alltaf farnar og þarfnast ekki upphringingar. Samkomulag varð um að hafa þetta fyrirkomulag til fyrsta maí og hefur Vegagerðin heimild til að endurskoða þessi ákvæði og falla frá þessu fyrirkomulagi ef þetta verður ekki nýtt.
Samningurinn um aksturinn frá Reykjavík á Snæfellsnes, Borgarnes, Hvergerði, Selfoss, Hellu, Hvolsvöll, Landeyjahöfn, Vík, Kirkjubæjarklaustur og á Höfn er óbreyttur og einnig samningurinn Höfn - Egilsstaðir yfir sumartímann, hann helst einnig óbreyttur, segir í fréttatilkynningu.