Samið um undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4

Guðmundur Ingi Ásmundsson og Árni Helgason handsala samning vegna Þeistareykalínu 1.
Guðmundur Ingi Ásmundsson og Árni Helgason handsala samning vegna Þeistareykalínu 1.

Landsnet hefur skrifað undir samning við Árna Helgason ehf. um undirbúningsvinnu vegna Þeistareykjalínu 1 og á næstu dögum verður skrifað undir samning við G. Hjálmarsson hf. vegna undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4.

Kostnaðaráætlun fyrir undirbúningsvinnu við Þeistareykjalínu 1, milli Þeistrareykjavirkjunar og iðnarsvæðisins á Bakka, hljóðaði upp á ríflega 386 milljónir króna og átti Árni Helgason ehf. lægsta tilboðið í verkið, upp á tæpar 469,5 milljónir króna. Nú hefur verið gengið frá samkomulagi um verkið við Árna Helgason, framkvæmdir hefjast í byrjun maí og skal verkinu að fullu lokið 1. október í haust.

Kostnaðaráætlun fyrir undirbúningsvinnu við Kröflulínu 4, milli Kröflu og Þeistareykjavirkjunar, var rétt rúmlega 430 milljónir króna og átti G. Hjálmarsson hf. lægsta tilboðið, upp á tæplega 448,5 milljónir króna. Verður skrifað upp á samning við fyrirtækið um verkið á næstu dögum.

Þá verða tilboð í möstur Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 opnuð á föstudag og verið er að bjóða út reisingu og strengingu línanna í vikunni. Á næstu vikum verður annað efni í línurnar boðið út. Tilboð í tengivirki á Bakka, Þeistareykjum og í Kröflu voru opnuð fyrir nokkru og eru nú til skoðunar hjá Landsneti. Jafnframt hefur allur búnaður í tengivirkin verið boðinn út.

Nýjast