Samherji veitti styrki samtals að upphæð 60 milljónir króna

Útgerðarfyrirtækið Samherji veitti fyrir stundu styrki til ýmissa samfélagsverkefna á Akureyri og Dalvík, samtals að upphæð 60 milljónir króna. Athöfnin fór fram í Flugsafni Íslands á Akureyrarflugvelli að viðstöddu fjölmenni. Fulltrúar íþróttafélaga á svæðinu voru fyrirferðarmiklir á sviðinu í Flugsafninu en stærstu einstöku styrkina fengu KA og Þór, eða 11 milljónir króna hvort félag.  

Helga Steinunn Guðmundsdóttir, einn eigenda Samherja, afhenti styrkina og hún sagðist við það tækifæri vera stolt af því að tilheyra Samherjafjölskyldunni. Helga sagði einnig að Samherji hefði ávallt haft á að skipa frábæru starfsfólki, hvort heldur sem væri á skrifstofu, í landvinnslu eða á sjó. Fyrir um ári stóð Samherji fyrir samskonar athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri en þá afhenti fyrirtækið styrki samtals að upphæð 50 milljónir króna.

Nýjast