Samfélagsleg launaleiðrétting

Um þessar mundir standa grunnskólakennarar í kjaraviðræðum við sveitarfélögin og allt stefnir í vinnustöðvun. Lengi hafa grunn- og leikskólakennarar búið við lök kjör í samanburði við stéttir með sambærilega menntun. Með auknum menntunarkröfum til kennsluréttinda er þessi munur orðin enn óásættanlegri.  Það er í höndum kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum að leggja línur er varðar kjör kennara. Á komandi kjörtímabili ætlum við í VG að leggja sérstaka áherslu á að bæta kjör þeirra starfsmanna sveitarfélagsins sem eru undir meðallaunum og kennararnir okkar eru því miður sannarlega í þeim hópi.

Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið er láglaunasvæði, samanborið við höfuðborgarsvæðið og hefur þessi staða verið nokkuð lengi við lýði. Akureyrarbær er lang stærsti vinnuveitandinn í sveitarfélaginu og hlýtur þar með að leiða launaþróun á svæðinu. Þannig á bærinn að stuðla að hækkun launa á svæðinu samhliða því að byggja upp sanngjarnt kerfi sem metur starfsfólk að verðleikum.

Þetta viljum við í VG gera með því að breyta skipulagi fjármála bæjarins. Við viljum hækka grunnlaun bæjarstarfsmanna sem hafa tekjur undir meðallaunum á almennum markaði. Þar er um að ræða einhliða aðgerð sveitarfélagsins, þar sem allir starfsmenn bæjarins með grunnlaun undir meðaltali launa á almennum vinnumarkaði árið 2014 fá allt að 10% hækkun grunnlauna umfram það sem næst í kjarasamningum eða er að finna í gildandi slíkum. Þannig viljum við leiðrétta laun í samfélaginu og augljósa forsendubresti ákveðinna hópa.

  • Með þessu viljum við að sveitarfélagið þakki þeim fyrir sem sinna börnum okkar

  • Með þessu viljum við hefja þá vegferð að sveitarfélagið sem stærsti vinnuveitandinn lyfti svæðinu frá því að vera láglaunasvæði

  • Með þessu viljum við sýna hvernig má forgangsraða í þágu velferðar

  • Með þessu viljum við sýna í verki að þeir sem viðhalda lífsgæðum í samfélaginu eigi að njóta sannmælis

Sóley Björk Stefánsdóttir, Edward H. Huijbens og Hildur Friðriksdóttir

Höfundar skipa 1. 2. og 3. sæti á lista VG fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar  

Nýjast