Sameining Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps tekur gildi 12. júní

Á síðasta fundi hreppsnefndar Arnarneshrepps var farið yfir niðurstöður í kosningu um sameiningu Hörgárbyggðar og Arnarneshrepps sem samþykkt var á dögunum. Í bókun hreppsnefndar Arnarneshrepps kemur m.a. fram að nefndin samþykki fyrir sitt leyti að sameining sveitarfélaganna taki gildi 12. júní 2010, hið sameinaða sveitarfélag taki yfir allt það land sem nú tilheyrir Arnarneshreppi og Hörgárbyggð.  

"Íbúar sveitarfélaganna verði íbúar hins sameinaða sveitarfélags, eignir, skuldir, réttindi og skyldur sem tilheyra sveitarfélögunum falli til hins sameinaða sveitarfélags, skjöl og bókhaldsgögn sveitarfélaganna skuli afhent hinu sameinaða sveitarfélagi, kosið verði til sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags 29. maí 2010, þ.e. fimm fulltrúa og fimm varamenn, í sveitarstjórn hins sameinaða sveitarfélags og kosið verði um nafn hins sameinaða sveitarfélags samhliða kosningum til nýrrar sveitarstjórnar 29. maí 2010," segir ennfremur í bókun hreppsnefndar Arnarneshrepps.

Málið var einnig á dagskrá á síðasta fundi sveitarstjórnar Hörgárbyggðar, sem lýsir yfir mikilli ánægju með niðurstöðu kosninga um sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar og telur að með sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga verði til traust rekstrareining sem geti betur tekist á við þau verkefni sem framundan eru til hagsældar fyrir íbúa hins nýja sveitarfélags. Jafnframt samþykkti sveitarstjórn samskonar bókun og samþykkt var á fundi hreppsnefndar Arnarneshrepps.

Nýjast