Sala árskorta hjá Leikfélagi Akureyrar gekk vel

Sala árskorta hjá Leikfélagi Akureyrar gekk mjög vel og „er á pari við undanfarin ár," segir Egill Arnar Sigurþórsson framkvæmdastjóri Leikfélags Akureyrar en alls seldust um 1800 kort sem er svipað og verið hefur síðastliðin tvö ár.   „Þetta gekk vonum framar og ekki annað að sjá en að fólk ætli að sækja leikhúsið í vetur."  Sölu árskorta lauk um síðustu helgi.  

Egill segir að sýningar á leikverkinu Lilju gangi vel og hefur verið bætt við aukasýningum.  „Það hefur verið mikil aðsókn og greinilegt að fólk vill sjá þetta verk, þetta er alls enginn gamanleikur en mjög áhrifamikil sýning," segir hann.  Strax í kjölfar þess að sýningum á Lilju lýkur tekur við jólasýningin; Lykillinn að jólunum.  Eftir áramót sýnir Leikfélagið svo sakamálaleikritið 39 þrep og þar á eftir söngleikinn Rocky Horror.  „Við finnum að það er mikil eftirvænting í gangi og mikill áhugi, greinilega fýsir marga að sjá þessi leikverk, þannig að við erum bara mjög bjartsýn," segir Egill.

Mikið hefur verið um að hópar af höfuðborgarsvæðinu sæki leikhúsið heim og er það vaxandi.  Egill segir að eflaust sé að einhverju leyti um að ræða hópa sem farið hefðu í borgarferðir til útlanda, Kaupmannahafnar eða London ef ekki væri fyrir efnahagskreppuna hér á landi.  „Akureyri hefur þegar allt er talið saman upp á margt að bjóða, skíðasvæði, sundlaug, leikhúsið og veitinga- og gististaði sem allt er í háum gæðaflokki, þannig að hingað streymir fólk sem sennilega hefði ella farið til útlanda," segir hann.  „Akureyri er eini bærinn „úti á landi" sem hefur svo fjölbreytt úrval af afþreygingu í boði, þegar allt púslast saman höfum við upp á margt að bjóða." Egill segir bjartsýni ríkjandi á að vel gangi í vetur, ekki sé ástæða til annars, „og við erum stolt af því að geta boðið heima- og ferðamönnum upp á góðar sýningar í vetur."

Nýjast