Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) hefur hlotið alþjóðlega gæðavottun á starfsemi sinni og er fyrsta heilbrigðisstofnunin á Íslandi til að hljóta slíka vottun. Vottunaraðilinn er alþjóðlega fyrirtækið DNV GL sem er eitt af stærstu fyrirtækjum á þessu sviði í heiminum. SAk er fyrsta heilbrigðisstofnunin á Norðurlöndunum til að hljóta vottun DNV GL. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjúkrahúsinu. Vottunin er samkvæmt þeim kröfum sem staðlar DNV GL International Accreditation for Hospitals gera til sjúkrahúsa. Þetta er fyrsti áfangi á leið til vottunar sjúkrahússins samkvæmt ISO 9001:2015 staðlinum sem stefnt er að árið 2017. Vottunin tekur m.a. til gæðakerfis og gæðastjórnunar, áhættustýringar og áhættumats, skipulags, allrar klínískrar þjónustu, starfsaðstöðu, húsnæðis og réttinda sjúklinga.
„Megin drifkrafturinn í þessari vegferð sjúkrahússins, sem hlotið hefur nafnið Gæðingurinn, er aukið öryggi og þjónusta við sjúklinga og bætt starfsaðstaða. Vottunin og sú vinna sem henni tengist skilar markvissari vinnuferlum, auknu öryggi sjúklinga og starfsmanna og tryggir stöðugar umbætur sem munu leiða til skilvirkari þjónustu. Þá skerpir hún á hlutverkum hvers og eins sem m.a. hefur jákvæð áhrif á vinnuumhverfi og samskipti sem eru lykilþættir í starfsánægju,“ segir í tilkynningu.
Gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu hefur lengi verið til umræðu innan heilbrigðisstofnana og í samfélaginu. Sjúkrahúsið á Akureyri setti það sem markmið í framtíðarsýn sinni til 2017 sem samþykkt var í lok árs 2011 að starfsemi þess yrði alþjóðlega vottuð. „Ötullega hefur verið unnið að þessu markmiði síðan og nánast allir starfsmenn komið að því verki með einum eða öðrum hætti undir styrkri stjórn gæðaráðs, gæðastjóra, gæðavarða og stjórnenda.“