Skipulagsráð Akureyrar hefur tekið jákvætt í erindi frá Sæluhúsum á Akureyri sem reka gistiþjónustu við Búðartröð, en þeir sækja um breytingu á deiliskipulagi á lóð númer 2 við Búðartröð.
Í breytingunni felst að á norðaustan verðri lóð verði gert ráð fyrir samfelldu húsi á þremur hæðum í stað stakstæðra frístundahúsa. Þá fjölgar gistirýmum um 180, úr 200 í allt að 380 og heildarfjöldi bílastæða fer úr 87 í 110.
Í Aðalskipulagi Akureyrar 2018 til 2030 er lóðin við Búðartröð 2 skilgreind sem frístundabyggð. Helsta breytingin er á reit C þar sem áður stóð til að hafa 5 hús á einni hæð í að reisa tvö hús á þremur hæðum ásamt þjónustubyggingu.
Skipulagsfulltrúa var falið að ræða við umsækjanda um fjölda bílastæða, útfærslu á útliti, ásýnd bygginga og jarðvegskönnun.