SA tapaði á heimvelli gegn SR

Það voru tólf mörk skoruð í Skautahöll Akureyrar í kvöld er SR lagði SA af velli, 8:4, á Íslandsmótinu í íshokkí karla. SR komst tvisvar yfir í fyrsta leikhluta en SA jafnaði jafn óðum og staðan 2:2 eftir fyrstu lotu. Í annarri lotu skoruðu SR þrjú mörk gegn einu SA og höfðu yfir 5:3 fyrir þriðju og síðstu lotu.

Sama var upp á teningnum í þriðju lotu þar sem SR skoraði þrívegis gegn einu marki SA og unnu að lokum fjögurra marka sigur, 8:4.

Rúnar Freyr Rúnarsson skoraði tvívegis fyrir SA í leiknum og þeir Jón Benedikt Gíslason og Jóhann Leifsson sitt markið hvor. Hjá SR var Egill Þormóðsson markahæstur með þrjú mörk.

Með sigrinum komst SR upp að hlið SA á toppi deildarinnar, sem er orðinn ansi spennandi fyrir lokaleikina, en SR og SA hafa 22 stig en Björninn fylgir fast á eftir með 19 stig. Það stefnir því í æsispennandi keppni milli þessara þriggja liða um sæti í úrslitakeppninni þegar öll liðin eiga þrjá leiki eftir.

Nýjast