SA átti ekki í teljandi vandræðum með erkifjendur sína í SR er liðin mættust í Skautahöll Akureyrar í kvöld á Íslandsmóti karla í íshokkí. Lokatölur leiksins urðu 6:0 heimamönnum í vil. Eftir markalausan fyrsta leikhluta fóru heimamenn á kostum í öðrum leikhluta. Annar leikhluti var rétt mínútu gamall er SA skoraði fyrsta mark leiksins og var þar að verki Josh Gribben. Orri Blöndal bætti öðru marki SA við fimm mínútum síðar og staðan orðinn 2:0 fyrir heimamenn.
Jóhann Már Leifsson kom norðanmönnum í 3:0 á 14. mínútu annars leikluta og áður en leikhlutinn var allur hafði Jón Benedikt Gíslason komið SA í 4:0 og þannig stóðu leikar fyrir þriðja og síðasta leikhluta. Þeir Jóhann Már Leifsson og Helgi Gunnlaugssn bættu við sitthvoru markinu fyrir heimamenn í þriðja leikhluta og öruggur 6:0 sigur SA staðreynd.
Þar með hefur SA tyllt sér á topp deildarinnar með 20 stig en SR er í öðru sæti með 19 stig. Næsti leikur SA er á þriðjudaginn kemur, þann 19. janúar, er liðið sækir Björninn heim.