Ruslatunnan braut eldhúsgluggann

 

Félagar í björgunarsveitinni Garðari á Húsavík voru ræstir út um níuleytið í gærkvöldi, þar sem lausamunir voru farnir að fjúka við nýbyggingu Fosshótels Húsavíkur. 

Á mbl.is er haft eftir björgunarsveitarmanninum Guðbergi Ægissyni að það hafi verið mjög hvasst í bænum í gærkvöldi en útköllin hafi ekki verið fleiri. Félagar í Garðari verða þó áfram í viðbragðsstöðu í dag þó veðrið sé  skaplegt í augnablikinu, þar sem veðurspá er ekki björguleg.

Þess má svo geta að fréttamaður vaknaði um tvöleytið í nótt við heljarmikinn smell og brothljóð og  taldi líklegt að þar væru bandíttar og innbrotsþjófar á ferð. Svo reyndist þó ekki vera. Reyndar var ytra glerið í eldhúsglugganum brotið, en ekki af mannavöldum. Ruslatunna hafði sem sér fokið um koll og lokið lamist við rúðuna með þessum afleiðingum.

Farg var sett við tunnuna þar sem hún lá og hún haggaðist ekki það sem eftir lifði nætur. Um klukkan 4 fauk hinsvegar hin tunnan með heljarmiklum larmi út á götu og þá var ekki um annað að gera en að bregða sér aftur í brók og bjarga tunnuskrattanum frá því að fjúka á haf út. Gekk sú aðgerð giftusamlega. JS

Nýjast