Til stóð að lýsa kröfunni sem forgangskröfu, en ágreiningur hefur verið um það hvort sambærilegar kröfur njóta forgangs eða ekki og er sá ágreiningur fyrir dómstólum. Ef krafan hefði komist að sem forgangskrafa fengist hún væntanlega greidd að fullu. Ef hún hefði komist að sem almenn krafa eru væntar endurheimtur nær 50%-um. Sjóðurinn hefur unnið að því að fá samþykki annarra kröfuhafa til að koma kröfunni að, en ekki hefur fengist niðurstaða í það mál. Þá hefur sjóðurinn fengið tvö lögfræðiálit sem bæði komast að þeirri niðurstöðu að krafan komist að, þrátt fyrir vanlýsingu, komist á nauðasamningur eins og unnið er að. Komist krafan að má gera ráð fyrir að hún bæti tryggingafræðilega stöðu sjóðsins um 1-2%, segir ennfremur í ársreikningum.
Árið 2009 var erfitt rekstrarár fyrir Stapa lífeyrissjóð, segir í skýrslu stjórnar. Afkoma Tryggingadeildar sjóðsins var slök annað árið í röð og er tryggingafræðileg staða deildarinnar erfið. Rekstur allra safna Séreignadeildar gekk á hinn bóginn vel, en engin fyrirtækjaskuldabréf eða gjaldeyrisvarnarsamningar voru í eignasöfnum safnanna sem skýrir þennan mun að mestu. Árið 2009 einkenndist af efnahagssamdrætti og harkalegri aðlögum eftir eignabólur undanfarinna ára og efnahagshrunið haustið 2008. Endurkipulagning efnahagslífs- og fjármálakerfis hefur gengið hægt fyrir sig og mikil óvissa ríkir enn um verðmæti eigna og afdrif margra fyrirtækja og heimila. Ljóst er að langur tími mun líða áður en öll kurl eru komin til grafar í þeim efnahagshremmingum sem gengið hafa yfir íslenskt þjóðfélag, segir m.a. í skýrslu stjórnar.
Þá kemur fram í ársreikningi Stapa fyrir síðasta ár, að stöðugildi hjá sjóðnum voru 10,3 í árslok. Heilarfjárhæð launa nam 65,7 milljónum króna og launatengd gjöld 12,3 milljónum króna. Launagreiðslur til stjórnenda á síðasta ári námu tæpum 18,7 milljónum króna, þar af til Kára Arnórs Kárasonar framkvæmdastjóra um 14,8 milljónum króna. Af stjórnarmönnum má nefna að Sigurður Hólm Freysson stjórnarformaður fékk greiddar 855 þúsund krónur, Sigrún Björk Jakobsdóttir fékk greiddar 765 þúsund krónur og þau Aðalsteinn Árni Baldursson, Björn Snæbjörnsson og Anna María Kristinsdóttir fengu hvert um sig 540 þúsund krónur í launagreiðslur fyrir síðasta ár. Ársfundur Stapa lífeyrissjóðs verður haldinn fimmtudaginn 6. maí n.k. í Skjólbrekku í Mývatnssveit. Ársreikning Stapa fyrir síðasta ár, má finna á vef sjóðsins: Stapi.is.