Hjalti Jón sagði að hópurinn gefi ágæta mynd af þeirri breidd í námsframboði sem Verkmenntaskólinn á Akureyri býður upp á. "Það er trú okkar að sá hluti hópsins sem hefur aflað sér starfsréttinda standi vel undir þeim og kunni sitt fag á meðan hinir, stúdentarnir, uppfylli þær kröfur sem gerðar verða til þeirra fari þeir í áframhaldandi nám á háskólastigi eins og þeir hafa nú rétt til. Iðnaðarmennirnir eiga reyndar sveinsfprófið eftir, sem er á landsvísu, þar sem þeir þurfa að sanna bæði verklega og bóklega getu sína. Er það ekki síður prófsteinn fyrir skólann en fyrir nemendurna - en staðreyndin er sú að nemendur okkar hafa jafnan staðið sig með prýði á sveinfprófum og oft skarað fram úr."
Hjalti Jón sagði að sú önn sem nú er liðin hafi verið álíka fjölmenn og fyrir ári síðan en þá sló nemendafjöldinn öll fyrri met. "Hér hófu um 1350 nemendur nám í dagskóla og höfðum við þá engu að síður hafnað um 200 umsóknum. Það hefur verið gífurleg aðsókn að skólanum og hefur hún farið vaxandi ár frá ári," sagði Hjalti Jón.
Hann sagði að þrengingar á vinnumarkaði hljóti að hafa einhver áhrif og að það sé jafnframt tímanna tákn að það skuli hafa verið áberandi minni aðsókn í húsasmíðanám síðastliðið haust en í fyrrra og nokkur árin þar á undan. "Uppsveifla í byggingargreinum síðustu ára kom greinilega fram í meiri áhuga á námi á þessu sviði. Þegar verkefnum fækkar í byggingariðnaði kemur það fram í minni aðsókn enda ekki lengur á vísan að róa ætli nemendur að komast á samning hjá meisturum. Þá er þess að geta að nú er skólinn að útskrifa bifvélavirkja í fyrsta sinn og má með sanni segja að það hefði ekki mátt bíða lengur. Innflutningur á nýjum bifbreiðum hefur nánast stöðvast eftir bankahrunið og geisilegt fall íslensku krónunnar. Síðustu árin hafði hann verið feiknarlegur og dæmi voru um að verið væri að fara með nánast óaðfinnanlega nokkurra ára gamla bíla til förgunar þar eð þeir væru verðlausir eða að minnsta kosti óseljanlegir þar eð allir vildu eignast splunkunýja bíla. Nú er öldin önnur og því má gera ráð fyrir að aðsókn í greinar á borð við bifvélavirkjun muni stóraukast á næstunni enda aldrei meiri þörf fyrir vel menntað fólk á því sviði," sagði Hjalti Jón.