Stjórn Veiðifélags Eyjafjarðarár hefur ákveðið að gera mjög róttækar breytingar á veiðifyrirkomulagi í ánni á komandi sumri. Ástæðan er minnkandi veiði á bleikju í ánni undanfarin ár og eiga breytingarnar að hjálpa bleikjustofni hennar að rétta úr kútnum. Róttækasta breytingin og sú sem mun vekja mesta athygli er að engin veiði verður heimiluð á 5. svæði árinnar árið 2007. Meðal fjölmargra veiðimanna er þetta langskemmtilegasta veiðisvæði árinnar og hefur það oft verið það gjöfulasta einnig. Menn munu eflaust velta fyrir sér hvers vegna var ekki leyfð veiði á 5. svæði með ströngum fyrirmælum um að sleppa öllum fiski. Á 4. svæði verður veitt til 1. september en þar hefur verið veitt til 20. september. Veiðifyrirkomulag verður óbreytt á svæðum 2 og 3 en á 1. svæði verður leyfð veiði út september og mega menn hirða sjóbirting en sleppa á allri bleikju. Í september má hirða 10 sjóbirtinga á dag á 1. svæðinu.
Á 3. og 4. svæði er einungis heimiluð fluguveiði en maðk og spón má nota á svæðum 1 og 2. Kvóti á öllum svæðum árinnar verður 4 fiskar á dag eða tveir á hálfum degi, en heimilt er að veiða og sleppa umfram það. Nánar er fjallað um þetta mál í Vikudegi í gær.