Töluverður fjöldi gesta er kominn til Akureyrar en Bíladagar hófust í gærkvöld og standa fram á sunnudag. Að sögn lögreglunnar á Akureyri var mikið af fólki í bænum í gærkvöld og í nótt en allt hafi þó verið með rólegasta móti. Hins vegar fór að bera á kvörtunum til lögreglu strax í gærkvöld vegna hávaða og láta hjá hópi ökumanna og þó nokkuð hefur verið um kvartanir nú í morgunsárið. Búist er við að gestir haldi áfram að streyma til bæjarins í dag og á morgun.