Leikskólinn Pálmholt á Akureyri hlaut nýverið styrk úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins eins og komið hefur fram hér á dagskráin.is.
Markmið verkefnisins er að efla þekkingu kennara leikskólans á rökhugsun, talnaskilningi og rýmisvitund barna í þeim tilgangi að bæta námsaðstæður leikskólans á því sviði. Einnig að að þýða og staðfæra norska stærðfræðiskimunarlistann MIO (sambærilegur við TRAS skimunarlistann).
Með verkefninu er m.a. stefnt að aukinni þekkingu leikskólakennara og annars starfsfólks leikskólans á því hvernig börn þroskast á sviði talnaskilnings, rökhugusunar og rýmisvitundar.
Veturinn 2015-2016 er leikskólinn Pálmholt að vinna að læsisstefnu fyrir skólann. Í læsi felst að búa yfir þekkingu og leikni til að skynja, skilja, túlka, gagnrýna og miðla texta í víðum skilningi til að mæta kröfum samfélagsins og einstaklingsins. Með texta er átt við rimál, myndmál, talmál og önnur kerfi tákna.
„Starfsmenn leikskólans líta svo á að stærðfræðinám rúmist innan læsis í víðum skilningi. Það er því eðlileg útvíkkun á læsisstefnunni að horfa til stærðfræðinámsins,“ segir Erna Rós Ingvarsdóttir skólastjóri Pálmholts í samtali við dagskrána.is.
Mikilvægt er að starfsfólk leikskóla sé meðvitað um það og hafi þekkingu á að greina stærðfræðina í daglegum aðstæðum. Fjallað er um sjálbærni og vísindi á í Aðalnámskrá leikskóla og minnst á þær leiðir sem börn nota til að kanna og reyna að skilja umhverfi sitt. Þær leiðir eru m.a. að flokka, bera saman, rannsaka og draga ályktanir. Þetta allt er hluti af því að þroska stærðfræðifærni sína.
Á nokkrum stöðum í námskránni er hvatt til að efla sköpun, gagnrýna hugsun, ígrundun, hugtakaskilning og táknlæsi sem allt er hluti af því að iðka stærðfræði.
„Pálmholt leggur áherslu á að veita börnum sem víkja frá í þroska markvissan stuðning í stað þess að bíða og sjá til. Til þess að sá stuðningur verði markviss er leikskólanum mikilvægt að eiga aðgang að hentugu matstæki sem veitir upplýsingar sem skipta máli við að skipuleggja frekara nám nemenda,“ segir Erna Rós.
Hluti verkefnisins er þýðing og staðfæring á stærðfræðiskimunarlistanum MIO, sem þróað var í Noregi af Forum for matematikkmestring við Sørlandet kompetansesenter í samvinnu við Háskólann í Stavanger. Listinn hefur verið þýddur og gefinn út í Danmörku og Svíþjóð. MIO-tríóið, sem samanstendur af Dóróþeu Reimarsdóttur, Jóhönnu Skaftadóttur og Þóru Rósu Geirsdóttur, hefur fengið leyfi til að þýða matslistann og þessa dagana er verið að ganga frá samningi við höfunda og norska útgáfufyrirtækið Aschehoug. Þau svið stærðfræðinnar sem skimað er eftir með MIO eru rúmfræði, tölur og talning, þrautalausnir og færni barnanna í að skilja og nota hugtök tengd þessum sviðum.
„Kennarar leikskólans munu með fyrirlögn matslistanna auka vitund sína um þroskaferli barna á sviði stærðfræðinnar og ekki síður um stærðfræðina í umhverfi leikskólans og daglegu starfi hans. Í því sambandi er vert að minna á að allt sem veitt er athygli það vex,“ segir Erna Rós. /EPE.